144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnhugmyndin hér og það sem verið er að vinna með er afar gott mál og mikilvægt að verði að veruleika, en það skiptir máli hvernig það er útfært. Mjög ítarlegar umsagnir koma til dæmis frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem veruleg gagnrýni kemur á útfærsluna sem valin er í þessu tilfelli. Síðan líka umsögn frá Skipulagsstofnun sem dregur ágætlega fram þann vafa, eins og hv. þingmaður kom mjög vel inn á, sem enn er til staðar, til dæmis um það hvar kærurnar eiga heima o.s.frv. þegar á hólminn er komið. Það er mjög vel rökstutt í umsögn Skipulagsstofnunar.

Getur hv. þingmaður sagt mér hvers vegna menn reyndu ekki að svara þeim spurningum sem fram komu í umsögnunum? Það var greinilega ákveðið, miðað við þær breytingar sem gerðar voru, að allar athugasemdirnar væru málinu nánast óviðkomandi, það má túlka það þannig, fyrst hvergi er sérstaklega farið í gegnum þessi atriði í umsögnunum til þess að skerpa á þeim. Ég held nefnilega að það skipti máli þegar löggjafinn fjallar um mál og ef mikilvæg stofnun í stjórnsýslunni eins og Skipulagsstofnun kemur með jafn skýrar athugasemdir og kallar eftir því að ákveðnir hlutir og þættir séu skýrðir, af því að Skipulagsstofnun er nú ein þeirra stofnana sem þurfa að vinna með þessi lög, að menn að minnsta kosti að svara þeim með skipulegum hætti. Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvers vegna hún telur að það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli.