144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka formanni umhverfisnefndar fyrir að lesa fyrir okkur umsögn sem nefndin afgreiddi frá sér 16. febrúar síðastliðinn. Þessi umsögn meiri hlutans kom mér að mörgu leyti mjög á óvart. Í henni er margt af því sem hér er verið að setja fram gagnrýnt — ég ætla ekki að segja rakkað niður en gagnrýnt mjög; og mörg aðvörunarorð koma fram. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Ég harma það að formaður nefndarinnar skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að nefndin ynni þetta hraðar og skilaði þessu fyrr af sér.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan þá hlýtur stjórnarmeirihlutinn, sama hvaða hraði er á málinu, að hafa samráð sín á milli, nefndarformenn, um hvernig mál eru rædd og hvenær eigi að taka þau úr nefnd, eins og gerist hjá okkur í atvinnuveganefnd, til 2. umr. Eins og við vitum hefur frekar vantað eitthvað á mál frá stjórnarliðinu til að ræða á Alþingi, við getum séð það miðað við áætlun í dag og áætlanir í þessari viku að ekki er verið að ræða mörg mál frá stjórnarliðinu.

Í umsögninni eru margir fyrirvarar settir fram:

„Meiri hlutinn geldur varhuga við framangreindum atriðum og telur að leggja þurfi meiri áherslu á …“ — o.s.frv. „Kveða þarf skýrt á um þetta í frumvarpinu og gæta að því …“ — o.s.frv. „Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu.“

Nefndin telur sem sagt að skoða þurfi þetta frekar. Svona er þetta allt í gegnum umsögnina. Þess vegna er það spurning mín, um þessa umsögn sem kemur svona seint fram, sem ég ítreka að hefði þurft að koma fyrr fram: Styður hv. þingmaður þetta frumvarp eins og það er? Eða var þingmaðurinn að segja hér í lok ræðu sinnar að þetta þurfi að fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr., sem ég er alveg sammála? Og enn meira sammála (Forseti hringir.) eftir að ég heyrði málflutning stjórnarliðans, hv. þm. Höskuldar (Forseti hringir.) Þórhallssonar, um að greinilega þurfi að gera (Forseti hringir.) miklar breytingar. En styður hv. þingmaður þetta (Forseti hringir.) frumvarp?