144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi hafna þeim fullyrðingum að umsögn umhverfis- og samgöngunefndar hafi komið seint fram. Við tókum okkur bara þann tíma sem við höfum gert í öllum öðrum málum, kölluðum eftir umsögnum og fengum aðila á fund. Það er gríðarlega mikið á dagskrá hjá nefndinni, mörg mál sem við erum að fjalla um og málið fór í eðlilegan farveg. Ég fann ekki að nokkur maður, hvorki í meiri né minni hlutanum, gerði athugasemdir við þann málshraða. Ég veit líka að atvinnuveganefnd hefur unnið vel í þessu máli.

Ástæðan fyrir því að munur, blæbrigðamunur vissulega, er á áliti atvinnuveganefndar og umsögn umhverfis- og samgöngunefndar er kannski sú að við erum eingöngu að fjalla um atriði sem eru í verkahring nefndarinnar. Við hljótum að gera ráð fyrir því að þegar nefnd fær mál til umfjöllunar frá annarri nefnd sé verið að spyrja út í tiltekna þætti, ekki sé verið að biðja nefndina að fara í smáatriðum ofan í allt málið á sama hátt og sú nefnd gerir sjálf. Það væri tvíverknaður. Ég held að það skýri að mestu leyti þann blæbrigðamun sem er á áliti atvinnuveganefndar og umsögn umhverfis- og samgöngunefndar.