144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson útskýrði það ágætlega varðandi kæruheimildina. Mér sýnist á öllu að atvinnuveganefnd hafi unnið ágætisstarf í þá veruna, mér þykir það nú nokkuð skýrt, en benti hins vegar á að frumvarpið þyrfti að laga, og ég fagna því að sjálfsögðu ef atvinnuveganefnd hefur unnið eitthvað í þá veruna.

Varðandi samgönguáætlun, já, ég get alveg ítrekað það hér enn og aftur, ég tel að tryggja þurfi aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Ég er þeirrar skoðunar, eins og reyndar í nokkrum öðrum málum, að það eigi að vera lýðræðislega kjörnir fulltrúar allrar þjóðarinnar. Ég tel að það gæti verið mjög góður bragur á því að þegar kerfisáætlun lægi fyrir kæmi hún til umfjöllunar og staðfestingar á Alþingi. Ég held að það mundi ekki tefja í einu eða neinu. Það liggur gríðarlega mikið á á mörgum svæðum að við tryggjum raforku og raforkuflutning. Auðvitað er það fjármagnið sem stendur því fyrir þrifum á nokkrum stöðum, en sveitarfélög hafa vissulega staðið í vegi fyrir því annars staðar eins og gengur. Þá bendi ég líka á að þó að ég vilji hafa mikið og víðtækt samráð við sveitarfélögin verður Alþingi og lýðræðislega kjörnir fulltrúar allrar þjóðarinnar að eiga lokasvarið.

Svo vil ég taka fram að mér þykir hálfhjákátlegt að félagarnir sem standa í dyragættinni skuli vera að reyna að búa til einhvern ágreining á milli atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Það hefur verið ágætissamstarf þar á milli, það verður ágætissamstarf og ég hef enga trú á öðru en að okkur takist að vinna vel saman í framtíðinni.