144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er eins og hestur með strok í augum og reynir að smokra fram af sér beislinu. Hann er að reyna að sleppa dálítið billega frá þessu máli. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að vísa til ræðu hæstv. forseta hér fyrr í dag um málið þegar hann var spurður út í kæruheimildina. Mér voru svör hans ekki ljós, en það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er það sem hv. þingmaður sagði sjálfur í ræðu sinni. Hann sagði beinlínis þar, hvað sem hann segir núna í seinni ræðu sinni, að það vantaði skýrari heimildir fyrir kæruferli í frumvarpið. Það sagði hv. þingmaður. Hann verður þá að gera það upp við sjálfan sig hvort hann vill skipta um skoðun að því leytinu á milli ræðna.

Hitt er mjög mikilvægt að hv. þingmaður segir það alveg skýrt að hann telur að inn í frumvarpið þurfi að koma ákvæði um að kerfisáætlun komi hingað fyrir þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar fái að fjalla um það.

Þá spyr ég hv. þingmann: Ætlar hann að samþykkja frumvarpið (Forseti hringir.) án þess að þetta ákvæði komi inn í það? (Forseti hringir.) Ég spyr hann líka, hvernig í ósköpunum stendur á því ef þetta er hans skoðun, (Forseti hringir.) hvers vegna lagði hann það þá ekki til sem breytingartillögu í álitinu?