144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði verið heppilegt ef nefndin sem fjallaði um málið í heild hefði gert atlögu að því að reyna að svara öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður hefur borið fram. Margar spurninganna og gagnrýnin koma að miklu leyti fram í þó nokkrum af þeim umsögnum sem komu til nefndarinnar frá ólíkum aðilum. Það er því ekki eins og þetta sé kommúnískur áróður úr vinstri átt eða eitthvað slíkt, málið snýst ekki um það. Hér er verið að bera fram mjög mikilvægar spurningar, þetta snýst um ekki um að vont vinstri fólk eða Alþingi sé með einhver leiðindi. Þetta snýst einfaldlega um það að þetta mál skilur eftir sig margar spurningar. Það skilur eftir sig spurningar um það hvort ekki sé gengið of langt í því að fara inn á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna miðað við aðra löggjöf sem við höfum fyrir. Við höfum fyrirmyndir þar sem það er gert úr mörgum áttum á miklu, miklu mildari hátt en við sjáum gert hér. Þetta er ein harkalegasta leiðin, a.m.k. sem ég man eftir í fljótu bragði.

Síðan þarf líka að svara þeim spurningum sem koma frá Skipulagsstofnun, sem er aldeilis vön að vinna með flókna löggjöf og gerir það á hverjum einasta degi í sínum störfum og ekki bara eina löggjöf heldur margar og þarf að horfa til samspils þeirra. Fyrir þeim er ekki ljóst hvaða kæruleiðir gilda. Þess vegna er ég svo undrandi á því að menn reyndu ekki að svara spurningunum. Ég er eins og hv. þingmaður uppfull af spurningum eftir þessa yfirferð og ég held að menn verði að gera atlögu að því í umfjöllun nefndarinnar milli 2. og 3. umr. að svara þeim spurningum sem eftir standa. Það er engum greiði gerður með því að fara að vinna eftir þessari löggjöf ef þau atriði eru óskýr.