144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það hvort ég teldi eðlilegt að umræðan yrði stoppuð núna og málið tekið aftur inn í nefnd væri það auðvitað best. Það var einfaldlega þannig að við í umhverfis- og samgöngunefnd gerðum okkar besta til að svara þeirri eftirspurn sem var eftir umsögn frá okkur og reyndum að vinna hana vel. Við höfðum ekki meiri tíma en raun bar vitni og ég held að hún hafi borist atvinnuveganefnd á sama tíma og nefndin afgreiddi málið út. Það ber það í sér að nefndirnar tvær náðu ekki saman um málið með greinilega töluvert ólíka nálgun á það.

Það eitt og sér ætti kannski að verða tilefni til þess að forusta atvinnuveganefndar ákvæði að hlusta betur á þau sjónarmið sem við höfðum fram að færa. Ég tel því að það gæti verið hyggilegt af formanni nefndarinnar að óska eftir því þannig að við getum útkljáð þetta mál og farið þar í gegnum þessi sjónarmið í sameiningu í rólegheitum frekar en að gera það hér hvert og eitt fyrir misfullum sal í hvert skipti.

Aðeins varðandi hvort verið sé að flytja víglínuna til. Já, það er verið að því. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að hér er farið mjög geyst í það, þ.e. svigrúmið sem sveitarfélögin fá til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri er mjög naumt og það hlýtur að valda því að þau ákveða að byrja strax á hverju einasta stigi að nota tækifærin, þau tæki og tól sem til eru til að vinna sínu máli brautargengi. Þess vegna væri farsælast að reyna að finna sáttaferil eins og lagður er til í fjölmörgum (Forseti hringir.) af þeim umsögnum sem hér eru.