144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Í frumvarpinu kemur fram að rammaáætlun sé notuð sem grunnforsenda kerfisáætlunar. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess. Við þekkjum að þeir kostir sem eru í nýtingarflokki og auðvitað biðflokki, ekki er þar með sagt að þar verði af virkjunarframkvæmdum, og ég vil spyrja hv. þingmann hvort það væri ekki réttara, eins og Landvernd hefur nefnt, að nota raforkuspá. Í framhaldi af því langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í umsögn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands, að kerfisáætlun í dag byggist á ofmetinni þörf fyrir raforkuflutninga. Erum við að keyra á það að setja orkufrekan iðnað á hvern fjörð og í alla landshluta? Hver er þörfin? Þarf það ekki að liggja svolítið fyrir líka þegar við erum að taka svona veigamiklar ákvarðanir sem fylgja því að kerfisáætlun er sett á og framkvæmdir eru felldar þar inn í sem ákvarða þetta í raun og veru í framhaldinu?

Mig langar líka að heyra hjá hv. þingmanni um 1. gr. frumvarpsins, að ekki þurfi leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki, ef gert er ráð fyrir því í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar, hvort það sé eðlilegt að það þurfi ekki leyfi Orkustofnunar sérstaklega fyrir því.