144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Mig langar líka að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji ekki að kerfisáætlun eigi að fara í umhverfismat. Eins og ég skil frumvarpið er ekki gert ráð fyrir því. Við höfum líka rætt hér um landsskipulagsstefnu og unnið er að henni í dag. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að setja eigi kerfisáætlun inn á landsskipulagsstefnu, að þetta vinni saman. Að ekki sé verið að samþykkja núna frumvarp um kerfisáætlun og síðan eigi eftir að koma landsskipulagsstefna sem gerir kannski ekki ráð fyrir til dæmis mannvirkjum á miðhálendinu eða einhverjum svæðum hreinlega, að taka það út fyrir sviga, og þá hugsanlega skarist þetta tvennt.

Rætt hefur verið um kæruleiðir og meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lýst yfir í nefndaráliti sínu að hægt sé að kæra til úrskurðarnefndar raforkumála og nefndar hafa verið hugsanlega fleiri kæruleiðir, eins og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og jafnvel ráðherra. En ef það er skýr vilji meiri hluta atvinnuveganefndar að þetta kæruferli sé virkt, ætti þá ekki að setja það inn í frumvarpið en ekki einungis í skýringar í nefndarálitinu, og lögformlega hvaða gildi það hefur, hvaða stöðu hefur það í þessu máli? Ætti þá ekki að fylgja því alla leið og gera frumvarpið skiljanlegt svo að Skipulagsstofnun og þær merku stofnanir í samfélaginu skilji þá frumvarpið rétt?