144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, með síðari breytingum. Þessi umræða er að skýrast allnokkuð hér við 2. umr. þingmálsins. Þá er til að taka með nokkur meginatriði og nokkur atriði sem lúta að einstökum efnisþáttum máls og viðfangsefnum sem koma fram í einstökum greinum frumvarpsins og úrvinnslu atvinnuveganefndar að því er málið varðar í heild.

Það má kannski nefna fyrst, af því við erum að hefja síðari hálfleik, ef svo má segja, í 2. umr. málsins, að enginn sjálfstæðismaður hefur talað. Það er áhugavert og kannski ekki síst fyrir þá ástæðu að tveir sjálfstæðismenn eru með fyrirvara við annars býsna afgerandi umsögn meiri hluta umhverfisnefndar þar sem segir m.a., með leyfi forseta: „Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði“ — sem eru allnokkur — „þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu.“

Það er svo sem ekki eins og það hafi verið verkefni umhverfisnefndar að leggja til þær breytingar, en það liggur nokkuð í hlutarins eðli hverjar þær ættu að vera í umsögn nefndarinnar. Það hefði verið áhugavert að heyra í fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, í þeim sem hafa sett fyrirvara við málið að því er varðar afgreiðslu umhverfisnefndar. Við í minni hluta umhverfisnefndar höfum tekið undir öll þau sjónarmið sem koma fram hjá meiri hlutanum og bætum síðan um betur með allnokkra þætti sem hafa verið reifaðir og farið vel yfir af hálfu félaga minna í minni hluta umhverfisnefndar, hv. þingmönnum Katrínu Júlíusdóttur og Róberti Marshall.

Fyrsti punktur við umræðuna er sem sagt fjarvera Sjálfstæðisflokksins og almennt áhugaleysi þeirra sem eiga eða ættu að fylgja málinu eftir af hvað mestum áhuga og eldi.

Í öðru lagi langar mig að tala um nokkuð sem lýtur almennt að yfirbragðinu hér og málsmeðferðinni við hvert stórmálið á fætur öðru. Það er ekki eins og ástandið hérna sé þannig að afköstin séu gríðarlega mikil frá borði þessarar ríkisstjórnar og við séum upp fyrir haus í málum sem koma frá henni, það er nú þvert á móti. Maður hefði því haldið að menn gætu gefið sér tíma til þess að fara yfir og gaumgæfa efnisþætti mála svo að frumvörp væru að minnsta kosti ekki þannig að þau væru ótæk þegar þau kæmu til þingsins. En hér er um enn eitt slíkt mál að ræða, enn eitt málið sem er einfaldlega svo vanbúið að skipulagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga segir það fullum fetum. Ég vil geta þess sérstaklega, af því að það kann að vera einhver gleymi því, að Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki í stjórnarandstöðu í þinginu heldur er það umsagnaraðili og kemur með efnislegar athugasemdir við frumvarp sem er komið til vinnslu atvinnuveganefndar og gerir svo alvarlegar athugasemdir að nefndin leggur til að málið verði hreinlega kallað til baka, að málið verði kallað til baka og unnið betur.

Með tilvísun til þessa gerir hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir þá tillögu að sinni og leggur til að málinu verði vísað til baka, verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við umræðu málsins í dag hefur þeirri tillögu líka vaxið ásmegin að í stað þess að taka málið inn til nefndar með hefðbundnum hætti milli 2. og 3. umr. sé það í svo miklu efnislegu öngstræti að rétt sé að nefndin taki það til sín nú þegar, þ.e. áður en 2. umr. lýkur, til að freista þess að ná einhvers konar lendingu. Þá er ég ekki aðeins að tala um efnislega lendingu málsins, einhvers konar pólitíska sátt um niðurstöðuna, heldur einfaldlega þannig að málið sé ekki beinlínis til skammar.

Málið er vont þegar það kemur frá ráðherranum, eins og kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri umsögnum sem hér koma fram. Svo hefur komið fram í máli meiri hluta hv. atvinnuveganefndar að haldnir voru margir fundir um nákvæmlega þennan þátt málsins, en þrátt fyrir það virðist sem nefndinni hafi yfirsést meira og minna allar athugasemdir umsagnaraðila eða þá einfaldlega verið þeirrar skoðunar að umsagnirnar bæri að hunsa. Það er ekki tekið tillit til einnar einustu athugasemdar.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að maður veltir því fyrir sér í ljósi þess hver skilningur atvinnuveganefndar er almennt á hlutverki umsagna. Til hvers sendir fastanefnd þings mál út til umsagnar? Hvert er markmiðið með því? Ég hélt að við alþingismenn deildum því að það væri til þess að öðlast betri skilning á málinu og til að freista þess að betri sátt næðist um málið, en hér virðist vera sú nálgun að málið er tekið gagnrýnislaust og því skilað í 2. umr. eins og engar umsagnir hafi verið lesnar. Meira að segja eins alvarleg athugasemd og kemur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er ekki tekin til umfjöllunar í meirihlutaáliti nefndarinnar. Frumvarp sem er vanbúið að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga fer því gagnrýnislaust í gegnum meiri hluta atvinnuveganefndar og er skilað til þingsins og hér á níunda tímanum er enginn fulltrúi stjórnarflokkanna í þingsal og enn hefur enginn sjálfstæðismaður talað í málinu, þótt þeir geri fyrirvara við umsögn umhverfisnefndar.

Ég er mjög hugsi varðandi stöðu umhverfisnefndar í því efni og vegna þess að þetta er ekki stakur viðburður. Við skulum ekki gleyma því að þegar þessi ríkisstjórn tók við á vordögum 2013 nefndi hún það strax að rétt væri að leggja umhverfisráðuneytið niður. Sá ráðherra sem fór síðan með málaflokkinn í hjáverkum talaði um rammaáætlun í hálfkæringi eins og hægt væri að svipta henni til og frá. Síðan höfum við ítrekað tekist á um það hvort umhverfis- og samgöngunefnd væri yfirleitt verðug þess að fá mál til umfjöllunar. Mér varð að orði í dag að rétt væri að endurskoða nafn nefndarinnar og kalla hana umsagnar- og samgöngunefnd, því að hún er komin með það hlutverk miklu fremur en önnur að vera einhvers konar umsagnarnefnd fyrir atvinnuveganefnd. En betur að svo væri, að hún væri þá í stöðu slíkrar gagnvart atvinnuveganefnd, þ.e. að það stæði til yfir höfuð að lesa eða tileinka sér þær athugasemdir sem koma frá umhverfisnefnd. En nei, það stóð heldur ekki til, það stóð ekki heldur til að taka mark á umsögn umhverfisnefndar frekar en öðrum umsögnum umsagnaraðila úti um land.

Umsögn bæði meiri og minni hluta umhverfisnefndar er fyrst og fremst með tilvísun til umsagnaraðila og gesta, þ.e. til þeirra sem eru fullbærir til þess að tjá sig um innihald og framsetningu frumvarpsins. Málefnaleg og skýr afstaða sem byggir á hverju? Hún byggir á þeim efnisþáttum sem heyra undir umhverfisnefnd, sem eru umhverfissjónarmið, umhverfis- og náttúrusjónarmið, það eru skipulagssjónarmið og það eru málefni sveitarfélaganna. Raunar er það svo þegar maður fer yfir þetta mál að það er vandséð að mikið annað sé í því en nákvæmlega það sem fellur undir verksvið umhverfis- og samgöngunefndar. Það töldum við að væri viðfangsefni okkar sem fastanefndar þingsins, að leggja til málanna við atvinnuveganefnd. Það gerðum við og umsögn umhverfisnefndar fór eins og allt hitt, í tætarann. Það sem kom frá sambandinu, það sem kom frá Skipulagsstofnun, það sem kom frá Landvernd, það sem kom frá umsagnaraðilum, yfirlag í tætarann, og líka það sem kom frá umhverfisnefnd.

Virðulegur forseti. Þetta er mjög óvenjuleg staða, ekki einungis fyrir það að hér eru tvær þingnefndir að takast á við nákvæmlega sama viðfangsefni og eru komnar á algjörlega hvor sinn staðinn í nálgun sinni gagnvart því efni, heldur sú staðreynd að áhöld eru um að það sé yfir höfuð meiri hluti með málinu í þinginu. Vitum við það? Stendur til að klára málið eins og það liggur fyrir? Ekki ef meiri hluti umhverfisnefndar stendur við umsögn sína. Hver er afstaða Framsóknarflokksins? Er það hv. þm. og framsögumaður málsins, Þorsteinn Sæmundsson, sem fer þar fyrir? Eða er það hv. þm. og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuldur Þór Þórhallsson? Eða eru þeir núna að ráða ráðum sínum einhvers staðar? Það væri áhugavert að heyra hvort menn væru búnir að botna þá umfjöllun. Hver er afstaða sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd sem skrifuðu undir með fyrirvara? Út á hvað gengur sá fyrirvari? Hver er afstaða formanns atvinnuveganefndar til þeirrar hófsömu og yfirveguðu hugmyndar sem hér hefur verið viðruð, að málið verði tekið inn til nefndarinnar án þess að 2. umr. sé lokið til að freista þess að forða þeirri skömm sem það er að afgreiða málið eins og það lítur út núna? Hver er afstaða forustu nefndarinnar til þess? Eða á það umræðuefni að fara í sama tætara og aðrar umsagnir? Á hvaða tíma eru menn uppi hérna?

Mér varð að orði áðan að það væri eins og frumvarpið væri skrifað 1975, nefndarálitið væri skrifað 1975. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, mér finnst eins og þeir stjórnmálamenn sem fara fyrir málinu sæki fyrirmyndir sínar til ársins 1975 í því hvernig þeir iðka málflutning sinn. Eða stendur ekki til að ræða þessi mál? Stendur ekki til að velta vöngum yfir mjög alvarlegum athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi skipulagsvald sveitarfélaganna? Stendur ekki til að bregðast við því einu sinni? Stendur til, þegar við tölum um umsögn umhverfis- og samgöngunefndar þingsins sem þingið sjálft tók ákvörðun um að kæmi að málinu, að hunsa það á sama hátt og fara bara að telja upp fundi, hvort einhverjir fundir hafi verið þrír eða 14 eða sjö eða hvað það hefur verið? Hvaða máli skiptir það? Erum við ekki komin hingað til að standa að góðri og uppbyggilegri löggjöf? Er það ekki það sem við ætlum að gera? Eigum við ekki að gera þetta eins og fólk? Ætlum við ekki að gera þetta þannig að einhver sómi sé að?

Virðulegur forseti. Mér hefur oft fundist vera lítill framtíðarbragur á þessari ríkisstjórn, en það safnast sannarlega kaflar í þá frásögn sem verður sögð af henni í fyllingu tímans, þ.e. að hún sé ríkisstjórn úreltra vinnubragða. Þetta er einn af þeim köflum sem hér er verið að skrifa.

Eins og kemur fram í umfjöllun meiri hluta hv. umhverfisnefndar, hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson formaður og Haraldur Einarsson, báðir flokksbræður hv. framsögumanns málsins, — hvað er að frétta af Framsóknarflokknum? — segja, með leyfi forseta:

„Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu. Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.“

Það frumvarp sem er til umfjöllunar gengur í öfuga átt við alla þróun löggjafar á sviði umhverfis- og skipulagsmála undanfarin ár og áratugi. Þetta mál er steingervingur.

Ég verð að segja að ég skora á hv. stjórnarmeirihluta að sjá að sér með það að hlýða nú á þær ágætu röksemdir sem hafa verið bornar upp og gefa þessu þann tíma sem þarf til að koma málinu í uppbyggilegan og góðan farveg, vegna þess að það er engin ástæða til að mál sem þetta sé rifið í gegn í ágreiningi. Það er engin ástæða til þess vegna þess að hér erum við að tala um löggjöf um verklag. Við erum að tala um löggjöf um verklag, um ferla, um framvindu mála, um gagnsæi, um það að við höfum fullan sóma af því hvernig mál verða til og hvernig þeim lyktar síðan í gegnum lýðræðislegt, opið og gagnsætt ferli. Það er það sem við erum að gera. Eða viljum við það ekki, virðulegur forseti?

Eru einhverjir hér sem vilja stíga fram og segja nei? Við viljum að þetta sé lokað ferli. Við viljum að fáir komi að því. Við viljum að þetta sé allt saman ákveðið af Landsneti, Orkustofnun stimpli það og þar með sé málið dautt. Við viljum hafa það svoleiðis af því að við teljum það betra. Við teljum vonda hugmynd að lýðræðislega kjörnir fulltrúar komi að málinu. Við teljum óráð að Alþingi komi nálægt málinu. Við teljum vont að sveitarfélögin komi að málinu. Við viljum loka þessu ferli. Ætlar ekki einhver að segja þetta, af því það er það sem það er? Það er nákvæmlega það sem það er.

Hvert er markmiðið með þinglegri meðferð mála? Fer ekki best á því við þinglega meðferð mála að við tökum málið til okkar til að bæta það, til þess að gera það betra? Umhverfis- og samgöngunefnd tók það hlutverk að minnsta kosti alvarlega að taka málið til sín og til þess að styðja atvinnuveganefnd til að gera málið betra. Við gerðum það saman.

Í þeim heimsóknum sem við fengum í umhverfis- og samgöngunefnd kom fram hjá hverjum umsagnaraðilanum á fætur öðrum að menn töldu hafa verið farið of geyst við gerð frumvarpsins. Menn töldu að búið væri að loka ákveðnum ferlum, búið væri að loka ákveðnu samráði of snemma. Samband íslenskra sveitarfélaga spurði til að mynda: Til hvers er samráðsferli á grundvelli skipulagslaga ef búið er að ákveða þetta allt fyrir fram? Til hvers er þá samráðsferli sem við komum okkur saman um hér og samþykktum mótatkvæðalaust í þinginu 2010 að væru skipulagslög, sem við vildum fara að? Það var þverpólitísk vinna. Hún var ekkert einföld. Hún var líka í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sum sveitarfélög vildu ganga miklu lengra í því að ráða málum sínum og þingið vildi stundum ganga miklu lengra í því að setja til að mynda inn ákvæði um landsskipulagsstefnu. En þetta var niðurstaðan eftir mjög langt ferli. Slíkt ferli er mjög dýrmætt. Þetta frumvarp fer gegn gildandi skipulagslögum.

Þannig að það er mikið undir og mjög afdrifaríkt ef menn telja að hægt sé að sulla sér í gegnum það með vanbúnu frumvarpi, sem menn ætla að afgreiða með handarbakavinnubrögðum sem hér eru kynnt til leiks. Hvernig má það vera að við séum ekki tilbúin til þess? Ég mundi vilja biðja þá þingmenn sem eru hér úr stjórnarmeirihlutanum að reifa það, og sérstaklega þá úr atvinnuveganefnd. Ég sé að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er staddur við umræðuna. Af hverju á kerfisáætlun að vera samþykkt úti í bæ og sveitarfélögin að beygja sig undir það á meðan samgönguáætlun er samþykkt á Alþingi? Af hverju á að gera það? Af hverju á að vinna það þannig ef við viljum styrkja stöðu slíkra áætlana og lýðræðislegt umboð sem liggur að baki þeim?

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta sé eitt þeirra mála sem er svo vanbúið af hendi ríkisstjórnarinnar, og því miður líka hroðvirknislega unnið gegnum meiri hluta atvinnuveganefndar, að ekki verði hjá því komist að við reynum að freista þess hér — og ég bið menn að hugsa það í fullri einlægni — að taka málið til nefndarinnar áður en 2. umr. lýkur til þess að ná skynsamlegri (Forseti hringir.) niðurstöðu og betra jafnvægi í þetta mikilvæga mál.