144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta rímar ágætlega við þær athugasemdir sem við gerðum í umhverfis- og samgöngunefnd og okkar umsögn, þ.e. að horft sé til þeirra sjónarmiða sem lúta að skipulagsvaldinu og þeim ferlum sem þar eru undir. Ég nefndi áðan í ræðu minni sérstaklega umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hv. þingmaður talar hér um Skipulagsstofnun sem er ríkisstofnun sem fer með skipulagsmálin sem eru kannski stærsti einstaki málaflokkurinn sem hér er undir. Hvað segir Skipulagsstofnun? Hún segir að það þurfi að vinna málið betur og til vara að það verði unnið þannig að umhverfis- og samgöngunefnd komi að málinu með umsagnir. Hún leggur sem sagt í fyrsta lagi til að málið verði unnið betur áður en það verður lagt fyrir þingið og til vara að umhverfis- og samgöngunefnd fái málið til umsagnar og þá verði væntanlega tekið mið af þeim umsögnum. Og hvað gerist? Í fyrsta lagi er málið ekki unnið betur, það er ekki tekið aftur inn og unnið betur þannig að það verði til meira gagns, og í öðru lagi er beðið um sýndarumsögn umhverfisnefndar sem stóð aldrei til að taka nokkurt mark á.

Ég vona að það sé þannig að þegar við tölum hér hvert við annað, maður á mann, að við séum öll með vandaða lagasetningu að markmiði en þetta er klárlega ekki leiðin að slíku markmiði. Í þessu tilfelli finnst mér það fullkominn óþarfi. Það kemur fram hjá Skipulagsstofnun, hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðilum að okkur liggur ekki á að klára þetta. Við getum klárað þetta á vorþinginu ef við berum gæfu til þess að setjast yfir málið saman, atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd, og ná inn þeim sjónarmiðum sem eru svo dýrmæt til að ná einhverju jafnvægi.