144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er að teiknast upp mynd af störfum meiri hluta hv. atvinnuveganefndar sem birtist ekki bara í þessu máli heldur líka í umgengni hennar við rammaáætlun sem hefur birst í að minnsta kosti tveimur dögum sem nefndir hafa verið dagar Jóns Gunnarssonar og er þá vísað til hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem hefur komið með mjög óvæntar tillögur um að fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar. Ég velti einfaldlega fyrir mér hvaða vinnulag sé verið að leggja upp í með þessum starfsháttum. Það sem mér dettur einna helst í hug er Cato, ekki Kató gamli, heldur sá sem kom oft fyrir í bíómyndinni um Bleika pardusinn og réðst óvænt á Peter Sellers, [Hlátur í þingsal.] það er einhvern veginn með þeim hætti sem hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hefur ákveðið að haga sér í þinginu í (Forseti hringir.) ýmsum málum, er alltaf með einhverjar óvæntar uppákomur og hleypir öllu í bál og brand.