144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það liggi algjörlega fyrir að ef við erum að tala um vonda löggjöf frá byrjun sem mikill ágreiningur er um, í fyrsta lagi ekki þverpólitísk samstaða um og í öðru lagi ekki samstaða um við sveitarfélögin eða Skipulagsstofnun, er það algjör uppskrift að því að málið verði í stöðugum ágreiningi. Allar leiðir verða nýttar til að setja mál í kæru og í uppnám á öllum stigum málsins. Það er afar illa farið með tímann að nýta hann ekki núna til að ná breiðari samstöðu. Það er skynsamlegt núna að nota tímann til að ná breiðari samstöðu um málið til að koma í veg fyrir að þetta verði uppskrift að mesta átakavettvangi landnýtingar inn í framtíðina. Þetta er bara svo hryllilega vitlaust.

Virðulegi forseti. Nei, ég man ekki eftir öðru slíku. Ég vil bara nefna að á síðasta kjörtímabili sem var ekki endilega dagar víns og rósa voru lögin um rammaáætlun, sem voru samþykkt í þinginu 2011, samþykkt án mótatkvæða, líka það að skipulagsvaldið væri skert. Það var ekki bara í samstöðu í þinginu, heldur líka með aðkomu sveitarfélaganna í hverju sú skerðing lægi og hvaða leiðir sveitarfélögin hefðu síðan til að rökstyðja sig frá þeirri niðurstöðu. Af hverju? Vegna þess að okkur fannst mikilvægt að löggjöfin héldi.

Hér fara menn fram með slíku offorsi að þeir teikna upp átakafarveg. Þeir eru að búa til átakafarveg. Þeir eru að teikna upp stríð með vondri löggjöf.