144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afar áhugavert að hlusta á umræður hér í dag. Ég verð að segja, þar sem ég sit hvorki í hv. atvinnuveganefnd né í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að mér finnst umræðan hafa verið mjög lærdómsrík. Ég tel það algjörlega borðleggjandi, eftir að hafa hlustað á umræðurnar, að þetta mál er ekki fullbúið. Það er algjörlega á hreinu í mínum huga, eftir að hafa hlustað á umræðurnar og farið yfir nefndarálit meiri og minni hluta hv. atvinnuveganefndar, að þetta mál þarf miklu frekari skoðunar við.

Það fyrsta sem ég vil nefna lýtur að vinnubrögðum Alþingis. Það er náttúrlega ekki í fyrsta skipti sem það kemur upp, en nú finnst mér algjörlega kominn tími til að þeim vinnubrögðum verði breytt. Málinu er vísað til umsagnar hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þetta er ekki fyrsta málinu sem er vísað til umsagnar þeirrar nefndar en þetta er stundum gert þegar mál skarast milli nefnda, því að nefndir hafa vítt svið. Þetta mál skarast augljóslega á milli nefndanna og það á við um fleiri mál. Við getum nefnt sem dæmi rammaáætlun, sem hefur verið hér til umfjöllunar, og miklu fleiri mál þar sem fleiri en ein nefnd koma hugsanlega að málum. Við getum rifjað upp náttúrupassann, sem um daginn var deilt um til hvaða nefndar ætti að fara — hefði getað átt heima í hv. atvinnuveganefnd, hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd — og ákveðið að óska eftir umsögnum um.

Farið er með þær umsagnir af hálfu Alþingis eins og umsagnir frá utanaðkomandi aðilum þannig að þær fá ekki það vægi sem þeim ber. Þeim er ekki dreift með þingskjölum. Ég vil fagna því að minni hluti atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, dreifir með nefndaráliti sínu umsögn meiri og minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þó það nú væri. Meiri hluti atvinnuveganefndar hins vegar — með sinn einblöðung, sem svo var kallaður af hv. þm. Róberti Marshall áðan — sér ekki ástæðu til að dreifa þeirri umsögn með áliti sínu, sem þó er beðið sérstaklega um og kallað eftir.

Virðulegi forseti. Þetta lýtur ekki bara að þessu máli, forsætisnefnd á að taka þetta til umræðu og skoðunar. Ekki er hægt að vísa málum til umsagnar þingnefnda í því skyni að stinga upp í þær snuði og vonast til að heyra svo ekki meir frá þeim. Það sem slær mig sem almennan þingmann í þessum sal er að lesa síðan þetta snautlega álit meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem fyrst og fremst eru taldir upp gestir og sagt að eitthvað sé sagt í frumvarpinu. Ekkert er farið yfir þær 200 bls. af umsögnum sem bárust. Ég kunni ekki við, af virðingu við pappírinn, að prenta þær allar út en ég er þó með nokkrar uppi við. Það er mjög áhugavert að fara yfir þær umsagnir og ég hyggst nýta allt of stuttan tíma minn hér til að fara yfir hápunktana í þeim umsögnum.

Það veldur mér vonbrigðum að sjá ekkert tekið á þessum umsögnum í umsögn meiri hluta atvinnuveganefndar, ekki neitt. Síðan kemur nefndarálit minni hlutans og umsögn umhverfis- og samgöngunefndar og þar er fyrst byrjað að fara eitthvað yfir þau efnisatriði sem sett eru fram í umsögninni um málið. Ég hlýt, virðulegi forseti, að gera athugasemdir við þessi vinnubrögð. Algjörlega óháð málinu og efnisatriðum þess þá eru þetta ekki boðleg vinnubrögð, þetta er ekki í lagi, og þetta þarf bara að fara yfir.

Þá kemur að málinu sjálfu og þeim umsögnum sem ég hef notað tækifærið til að fara aðeins yfir. Það eru tveir rauðir þræðir sem mér finnst ég greina í þeim öllum og síðan eru fjöldamörg önnur atriði sem koma upp hér og þar. Það er annars vegar umsögnin frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og síðan umsagnir fjölmargra einstakra sveitarfélaga þar sem er gagnrýnt hvernig gengið er á skipulagsvald sveitarfélaga. Það er umhugsunarefni að meiri hluti Alþingis telji ástæðu til í þessu máli að ganga beinlínis á það vald, sem er undirstrikað bæði í lögum um sveitarstjórnir og líka í stjórnarskrá, um sjálfstæði sveitarfélaga. Þá spyr maður sig: Hvaða mál er svo mikilvægt að eðlilegt sé að ganga með þessum hætti á skipulagsvald sveitarfélaga? Á því finnst mér ekki tekið í áliti meiri hlutans — þó að það sé breytingartillaga þá dugir hún í raun ekki til til að mæta þeim athugasemdum sem hér eru settar fram.

Hinn rauði þráðurinn, sem mér finnst ég greina í þessum umsögnum og mig langar að gera að umtalsefni, er skortur á umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu. Það er umhugsunarefni. Þegar við horfum til baka og skoðum sögu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi þá hefur hún ekki að litlu leyti snúist um nákvæmlega þetta, orkuframleiðslu, hvernig við framleiðum orku, hvernig við flytjum þá orku og í hvaða verkefni. Í ljósi sögunnar er alveg stórfurðulegt að við séum komin að árinu 2015 og hér sé lagt fram frumvarp um kerfisáætlun og umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum sé ekki gert hærra undir höfði en raun ber vitni. Það er nánast eins og fólk kjósi að líta fram hjá því að öll stærstu ágreiningsmál á sviði náttúruverndar undanfarna áratugi hafa snúist um nákvæmlega þetta. Það á ekkert að læra af þeirri sögu, virðist vera, það á bara ekki að taka tillit til hennar. Það finnst mér umhugsunarefni því að hér verður mönnum tíðrætt um sátt.

Hv. formaður atvinnuveganefndar sagði til að mynda á dögunum að ekki væri möguleiki að leggja fram nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp því að menn vildu leita sátta. Gott og vel. Hvernig eigum við að trúa því þegar algjörlega er gengið fram hjá þeim sjónarmiðum í þessu máli og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar gerir ekkert til að koma til móts við þau sjónarmið?

Mér finnst þetta því miður til marks um hugsunarhátt sem er allt of algengur, og birtist líka í sambandi við þingsályktunartillögu um að virkjunarkostur sé færður úr biðflokki yfir í nýtingarflokk, í svokallaðri rammaáætlun — þegar við tókumst á um það til hvaða nefndar sú tillaga ætti að fara birtist sú undarlega tvíhyggja að nýting ætti heima í atvinnuveganefnd en verndun í umhverfis- og samgöngunefnd. Enn hef ég ekki fengið svör við því hvernig nákvæmlega er hægt að skipta rammaáætlun með þessum hætti, rammaáætlun sem er tilraun til að horfa heildstætt á orkunýtingu á vatnsafli og jarðvarma og vernd, að horfa heildstætt á málaflokkinn. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að skipta honum upp með þeim hætti?

Mér finnst þetta mál, þar sem umhverfisverndarsjónarmiðin, náttúruverndarsjónarmiðin, eru alls ekki tekin til greina, aftur bera vott um þessa tvíhyggju, að hægt sé að fjalla um nýtingu, þ.e. annars vegar virkjanir og hins vegar flutningsleiðir á raforku, án þess að taka umhverfisverndarsjónarmið inn í dæmið. Það sýnir að ákveðinn hluti, þó ekki allir, hv. þingmanna hefur hreinlega ekki tamið sér þá afstöðu að við hljótum að þurfa að horfa á þessi mál í samhengi, sem er samt undirstaðan fyrir lögunum um rammaáætlun sem voru samþykkt hér mótatkvæðalaust 2011. Kannski áttuðu menn sig ekki á því þá hvað þeir voru að samþykkja.

Þó virðist umhverfis- og samgöngunefnd átta sig á þessum sjónarmiðum, a.m.k. minni hluti hennar, þar sem minni hlutinn bendir á að það skorti mjög á að horft sé til umhverfissjónarmiða í fyrirliggjandi frumvarpi. Kerfisáætlun skuli byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa. Í áliti minni hlutans er bent á, og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að miða eigi við virkjunarkosti, ekki bara í nýtingarflokki — við vitum þó að virkjunarkostur í nýtingarflokki hefur ekki endilega í för með sé að búið sé að ákveða að virkja, heldur líka í biðflokki. Af hverju erum við með virkjunarkosti í biðflokki? Það er af því að við erum ekki einu sinni búin að ákveða hvað við ætlum að gera við þá kosti. Það er af því að ekki eru nægjanleg gögn fyrir hendi til að hægt sé að skoða þessa kosti. En eigi að síður er þeim sópað með hér í nýtingarflokknum þegar á að fara að gera áætlanir til langs tíma.

Það getur ekki — og ég tek undir með minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar — talist rökrétt að byggja á þessum atriðum í raunhæfri áætlun. Umhverfissjónarmiðin skorti líka í umfjöllun um línulagnir og þau miklu umhverfisáhrif sem þær geta haft.

Mér finnst mikilvægt, af því að í nefndarálitunum er vissulega verið að sjóða saman í stuttan og hnitmiðaðan texta þau miklu sjónarmið sem koma úr rannsóknunum — eins og ég sagði í upphafi þá finnst mér það umhugsunarefni að það sé hlutverk hv. umhverfis- og samgöngunefndar að vinna þá vinnu. En í ítarlegri umsögn Landverndar kemur fram, fyrir utan það að virkjunarhugmyndir í nýtingar- og biðflokki eigi að nota sem grunnforsendur fyrir áætlunum og framkvæmdum í flutningskerfi raforku — þetta samræmist ekki lögum um rammaáætlun og ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið tekið til sérstakrar skoðunar hvernig nákvæmlega þetta frumvarp samræmist þeim gildandi lögum. Ég fæ ekki séð að búið sé að vinna þá vinnu að skoða nákvæmlega samræmið milli þessar tveggja lagabálka.

Í umsögn Landverndar er líka bent á, sem mér finnst áhugavert — ætlunin er jú að einfalda leyfisveitingar, en um leið er dregið úr ákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga, eins og ég benti á áðan — að Orkustofnun verði falið eftirlit sem stofnunin geti ekki sinnt við núverandi lagaumhverfi. Þær athugasemdir má finna miklu víðar á þeim 200 bls. af umsögnum sem bárust um frumvarpið. Hvernig á Orkustofnun að sinna eftirliti samkvæmt því sem hér kemur fram? Með tilskipuninni sem frumvarpið byggist á, tilskipun Evrópusambandsins, er gerð krafa um sjálfstæðan, óháðan eftirlitsaðila gagnvart öllum öðrum opinberum aðilum og einkaaðilum. Slíkt er ekki tilfellið með Orkustofnun sem heyrir beint undir ráðherra orkumála. Og eins og lög um Orkustofnun eru nú er ljóst að helsta hlutverk hennar eru rannsóknir og ráðgjöf varðandi náttúruauðlindir. Hvernig nákvæmlega ætlum við síðan að fela Orkustofnun þetta eftirlitshlutverk? Þetta þarf að skoða miklu nánar, virðulegi forseti.

Í umsögn Landverndar kemur líka fram, sem er auðvitað hluti af þessum einfölduðu leyfisveitingum, að ekki þurfi lengur sérstakt leyfi fyrir einstökum framkvæmdum við raforkuflutningskerfið. Þá komum við aftur að umhverfissjónarmiðum. Þegar ekki er lengur gerð krafa um sérstakt leyfi fyrir framkvæmd þá skortir væntanlega á að öll þessi sjónarmið séu tekin til grundvallar miðað við það hvernig þetta frumvarp er byggt upp, ekki er gert ráð fyrir að umhverfissjónarmiðin séu sérstaklega höfð þar til hliðsjónar. Þetta ber því allt að sama brunni hvernig sem við lesum frumvarpið, fyrir utan að Landsneti sem flutningsfyrirtæki er gefið nokkurs konar sjálfdæmi en á svo að heyra undir eftirlit Orkustofnunar, sem ég er búin að benda á að er ekki endilega hæfur aðili út frá því sem krafist er í tilskipuninni. Í þessari einu umsögn koma því fram mörg atriði sem kalla á að málið verði skoðað betur.

Enn fremur er bent á að hér sé eingöngu verið að innleiða tilteknar greinar umræddrar Evróputilskipunar, í raun og veru áður — eins og ég skil málið — en gerð er krafa um að hún sé innleidd, en mikilvægir hlutar hennar skildir eftir. Það er líka umhugsunarefni þegar um er að ræða tilskipanir frá Evrópusambandinu — við höfum nú talsvert rætt það í þessum sal hvernig gangi að innleiða þær — hvort það sé endilega rétta leiðin að taka ákveðna hluta á undan og skilja aðra þeirra eftir. Ég held að í þessum málum sé mikilvægt — við skulum rifja það upp þegar raforkutilskipunin var innleidd á sínum tíma og fram kom að Ísland hefði getað sótt um undanþágu frá þeirri tilskipun, sem gekk út á að markaðsvæða raforkumarkaðinn. Það var ekki gert. En ýmsir aðilar sem stóðu að þeirri samþykkt sögðu síðar að þeir hefðu betur skoðað það mál betur og stoppað það meðan það var í umfjöllun í þinginu. Þá var forsjá því miður ekki höfð að leiðarljósi heldur kapp, og ég óttast að menn ætli að hafa kappið að leiðarljósi hér en ekki forsjána.

Hér eru því ýmsar athugasemdir og ég vil sérstaklega koma að síðasta lið í umsögn Landverndar. Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að Orkustofnun geti bundið leyfi til raforkuflutnings skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greint er frá í 1. mgr. 9. gr. laganna og að auki skilyrðum er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Þessa klausu er búið að taka út af einhverjum ástæðum, það er nánast verið að taka út þau umhverfisverndarsjónarmið sem fyrir eru í lögunum.

Í skýringartexta við frumvarpið er tekið fram að það sé ekki hlutverk Orkustofnunar að taka afstöðu til umhverfisáhrifa af framkvæmd eða setja skilyrði þar að lútandi enda sé slíkt á hendi annarra stjórnvalda. En það gengur ekki upp, að mati Landverndar, að Orkustofnun þurfi ekki að líta til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða við staðfestingu kerfisáætlunar. Það hljóti að vera skylda bæði flutningsfyrirtækis og eftirlitsaðilans, sem hér er þá Orkustofnun, að taka afstöðu til og sérstakt tillit til umhverfisþátta. Raforkulögin eru beinlínis byggð á Evrópulöggjöf á sviði raforku sem hefur vernd umhverfis að markmiði. Það eru þessar svokölluðu raforkutilskipanir Evrópusambandsins.

Ég sé því engin svör í nefndarálitinu við athugasemdum um að það sé beinlínis afturför fólgin í því að undanskilja Orkustofnun frá því að taka afstöðu til umhverfissjónarmiða.

Aftur komum við að því sem ég nefndi hér áðan: Þetta er frumvarp um raforkumál, málefni sem hefur valdið hvað mestum deilum þegar litið er til sögu íslenskrar náttúruverndar, og það er beinlínis dregið úr hlutverki Orkustofnunar. Þetta er gríðarstórt umhverfismál og það kemur varla við sögu í frumvarpinu.

Sett hefur verið inn setning í umfjöllun um að með þessu sé ekki verið að gera minni kröfur en áður hvað varðar mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í flutningskerfinu eða skilyrði þar að lútandi. Og það er vissulega rétt, sem Landvernd bendir líka á, að slík viðbót í greinargerð breytir í engu inntaki lagabreytingarinnar og hefur ekki sömu lögskýrandi áhrif og textinn í lögunum sjálfum.

Þetta finnst mér allt gríðarmikilvægir þættir. Ég nefni líka að Landvernd bendir á að tryggja þurfi með lagasetningu að áður en raflínur eru teknar inn á skipulag sveitarfélaga hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem almenningi hafi verið gefinn kostur á að koma að málinu meðan allir valkostir séu opnir. Það sé óeðlilegt að sveitarfélög taki ítrekað upp óskir flutningsfyrirtækis um legu raflína inn á skipulag áður en fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Slíkt mat ætti einmitt að vera einn helsti ákvörðunarþáttur í skipulagsákvörðunum sveitarfélaga og ætti að vega jafn þungt við ákvörðunina um hvort og hvaða gerðir raflína, svo dæmi sé tekið loftlínur eða jarðstrengir, fari inn á skipulag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að óháð umhverfissjónarmiðum beri sveitarfélögum að taka upp þá kerfisáætlun sem Landsnet vinni hverju sinni og það án raunverulegrar aðkomu almennings eða annarra hagsmunaaðila á fyrstu stigum máls.

Þá kem ég að því, af því að tíminn hleypur frá mér, sem nefnt er í nefndaráliti minni hlutans. Þar er bent á að ekki sé gert ráð fyrir því að kerfisáætlun fái umræðu á Alþingi, eins og til að mynda samgönguáætlun, eins og til að mynda áætlun um vernd og nýtingu landsvæða, sem kölluð er rammaáætlun í daglegu tali. Þá verður að sjálfsögðu lítið úr þessari umræðu þar sem sjónarmið almennings komast að. Mér finnst það mjög skrýtið að þetta hafi ekki heldur verið tekið upp af meiri hluta hv. atvinnuveganefndar, að tryggja að kerfisáætlun komi til umræðu hér á Alþingi eins og aðrar þingsályktanir um slíkar áætlanir. Mér er það eiginlega algjörlega óskiljanlegt af hverju þetta er ekki tekið upp með þeim hætti.

Ég get því ekki annað gert á mínum síðustu sekúndum hér en að taka undir það sem lagt er til af hálfu minni hlutans, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, sem vinni að því með ítarlegri hætti, taki tillit til þeirra sjónarmiða sem hér hefur við bent á, að ekki sé hægt að ganga fram hjá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum í jafn stóru umhverfismáli og þetta er, komi til móts við þær athugasemdir sem sveitarfélög, bæði samtök þeirra og einstök sveitarfélög, gera, og leiti eftir sem víðtækastri sátt um málið. (Forseti hringir.) Ég held satt að segja að þessi tillaga minni hlutans, virðulegi forseti, sé eina vitið í þessari stöðu.