144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn hlýtur að hafa áhyggjur af því hvernig atkvæðagreiðslan um frumvarpið fer hér með þær afdráttarlausu athugasemdir frá stjórnarliðum sem settar eru fram í meirihlutaáliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni um rammaáætlun og þá galla sem því fylgir að byggja á rammaáætlun til að gera áætlanir um framkvæmdir í flutningskerfi raforku. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni vegna þess að rammaáætlun er ekki spá um virkjanir eins og fram hefur komið í umræðum í dag, heldur er það eitthvað annað sem þar ræður hvort virkjað verður, það er eftirspurn eftir raforku, það er fjárhagslegur fýsileiki virkjana og umhverfisáhrif og fleira. Það eru allt önnur atriði sem ráða þar en rammaáætlun. Þess vegna er rammaáætlun ekki góð undirstaða undir svona áætlun til að byggja á til lengri tíma.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að ákaflega mikilvægt er að gera góðar áætlanir, hvað annað væri hægt að nota sem væri traustari grunnur undir áætlun um framkvæmdir um flutningskerfi, einhverjar forsendur sem hægt væri að gefa sér aðrar en rammaáætlun?