144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það vekur auðvitað athygli að hér gerir opinber stofnun, Skipulagsstofnun, mjög alvarlega athugasemd við frumvarpið sem hv. þingmaður fór yfir, þ.e. þá spurningu að kerfisáætlunin verði afgreidd án aðkomu kjörinna fulltrúa — sem eiga að vera fulltrúar fyrir almenning í landinu, ekki satt? — en um leið sé sveitarstjórnum, þar sem einnig eru fulltrúar kjörnir af sínu fólki, gert skylt að taka upp þau verkefni sem tilgreind eru í kerfisáætlun. Eins og ég kom aðeins að áðan finnst mér það dálítið merkilegt þegar horft er til þess að við höfum verið að vinna að því í þessu samfélagi, að því er ég hélt, að auka lýðræðið, staðfesta Árósasamninginn og gera ýmsar tilraunir í lýðræðisátt þannig að almenningur fái meiri aðgang að ákvörðunum sem varða hann, hvort sem það er gert með því að hleypa almenningi að ýmsum ákvörðunum áður en þær eru teknar eða með atkvæðagreiðslum eftir á. En í þessu frumvarpi, og það bendir opinber stofnun á, Skipulagsstofnun, er verið að reyna að draga úr lýðræðislegri aðkomu.

Af því að ég nefndi samgönguáætlun áðan, sem ég hef aðeins kynnst, þá hef ég séð að hún tekur oft breytingum í þingsal. Önnur sjónarmið koma inn þegar umhverfis- og samgöngunefnd fer yfir málin bæði með hagsmunaaðilum, fólki frá hinum dreifðu byggðum og sveitarstjórnum um land allt, og til þeirra sjónarmiða er mikilvægt að taka tillit.

Ég verð því að segja það að mér finnst jákvætt að Skipulagsstofnun varpi fram þessari spurningu en ekki gott að ekki sé tekið á henni fyrir 2. umr.