144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að hér erum við að tala um mál sem er vanbúið að áliti stórra og mikilvægra umsagnaraðila. Það hefur komið fram í umræðunni að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur nánast ekkert fjallað efnislega um málið og við erum hér komin með mál sem er þeirrar gerðar að það er í uppnámi þegar það kemur inn í þingið, það er í uppnámi þegar það kemur til 2. umr., og ég spyr, virðulegi forseti: Hvar er meiri hluti atvinnuveganefndar? Hér er hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson en hvar eru aðrir fulltrúar í meiri hluta atvinnuveganefndar? Hvar er hv. formaður nefndarinnar, Jón Gunnarsson?

Vegna þess að farið hefur verið yfir það fyrr í umræðunni spyr ég líka: Hvar er ráðherra skipulagsmála, hæstv. ráðherra Sigrún Magnúsdóttir? Er hún upplýst um að hér sé verið að taka skipulagsvaldið úr sambandi? Hvar er ráðherra sveitarstjórnarmála, hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) Ólöf Nordal, hverrar málaflokkur er í uppnámi líka vegna þess að sveitarfélögin eru hér forsmáð? Hefur það verið kannað?