144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki endilega brostinn á flótti, ég held bara að mönnum standi gersamlega á sama. Við sjáum það í því hvernig menn meðhöndla umsagnir sem komu inn til nefndarinnar um málið. Það er ekki hlustað á eina einustu þeirra, pínulítil athugasemd sem er tekin inn til að réttlæta einhvers konar úttekt á þessu máli, og svo núna hafa menn ekki einu sinni fyrir því að sitja hér og hlusta á það sem er sagt.

Ég sem nefndarmaður og 1. varaformaður í umhverfis- og samgöngunefnd er auðvitað mjög hugsi yfir því hvernig kollegar okkar fara með umsagnir sem þeir biðja okkur um. Atvinnuveganefnd óskar eftir því að við leggjum vinnu í umsögn. Hún kemur fram og menn gera ekki svo lítið að reyna að svara okkur. Það koma fram mjög alvarlegar athugasemdir, þverpólitískt. Það hefur ekkert með neitt vont vinstri að gera heldur skrifa sjálfstæðismenn og framsóknarmenn undir þetta og menn gera ekki svo lítið að reyna að svara hluta af því. Hér setur þingið verulega niður og það þarf (Forseti hringir.) að taka á því hvernig farið er með nefndir og tíma þingmanna og nefndastörf.