144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér heyrist og sýnist á þessari umræðu að full ástæða sé til að taka undir nefndarálit minni hluta atvinnuveganefndar um að málið sé vanbúið og því eigi að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar til að vinna það betur, miðað við þær alvarlegu athugasemdir sem koma fram í umsögnum til að mynda Skipulagsstofnunar og Samtaka sveitarfélaga, Landverndar og fleiri aðila sem mark er takandi á.

Mér finnst mjög undarlegt að ekki sé reynt að leggja neitt gott til málanna. Meiri hluti atvinnuveganefndar, fyrir utan framsögumann nefndarinnar, sýnir því ekki nokkurn áhuga að sitja undir umræðunni hér eða blanda sér í hana til að rökstyðja sjónarmið sín, af hverju meiri hluti atvinnuveganefndar telur enga ástæðu til að mæta þeim alvarlegu athugasemdum sem komið hafa fram. Það veit ekki á gott þegar menn hafa ekki nokkurn hug á að bæta málið.