144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum sem hafa rætt þetta mál og hversu vanbúið það er. Nú hef ég setið hér meira og minna í allan dag, fylgst með umræðunni og hlustað og er orðin mun upplýstari en ég var.

Ég velti fyrir mér í ljósi þess sem kom fram í máli ráðherra þegar hún mælti fyrir málinu: Hvað á þessi ríkisstjórn við þegar hún segist vilja leita sátta, þegar hún segist vilja leita samkomulags? Er það að einn stjórnarþingmaður sitji í sal og taki þátt í umræðu eða að verið sé að skoða að taka málið inn núna til frekari vinnslu, af því að það er það eina rökrétta í málinu? Eins og ég sagði hef ég hlustað á þær athugasemdir sem hafa verið reifaðar í dag þar sem minni hlutinn er fyrst og fremst að taka til umfjöllunar álit stofnana á því sem hér er verið að reyna að troða í gegn.

Virðulegi forseti. Það hlýtur (Forseti hringir.) að hafa komið til tals hjá meiri hlutanum að taka þetta inn í atvinnuveganefnd strax en láta umræðuna ekki standa fram á morgundaginn.