144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum þar komin í þessari umræðu að við verðum að gera hlé á henni. Umræðan liggur þannig að það er ekki hægt að halda henni áfram öðruvísi en að staldra við og skoða á hvaða leið hún er eiginlega. Sú mynd hefur dregist upp að það er enginn sem fylgir málinu eftir nema hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. Það liggur fyrir að málið er vanbúið, sveitarfélögin segja það sem og Skipulagsstofnun. Ráðherra skipulagsmála hefur ekki komið að umræðunni, ráðherra sveitarstjórnarmála ekki heldur og formaður atvinnuveganefndar hefur ekki heldur tekið þátt í umræðunni. Það gengur ekki annað en að gert verði hlé á umræðunni núna og menn ráði ráðum sínum og helst verði málið tekið aftur inn til ráðherra eða til nefndarinnar til áframhaldandi úrvinnslu til að freista þess að ná einhverju eðlilegu sköpulagi á þetta viðfangsefni.