144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hér legg ég það til og óska eftir að hlé verði gert á þessum fundi, atvinnuveganefnd kölluð saman snemma í fyrramálið og málið skoðað að nýju. Þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi talaði hún um að það þyrfti að vera hér góð sátt og hún teldi það nauðsynlegt vegna þess hvernig málið væri vaxið og við hvaða fleti það snertist. Það er alveg ljóst af þeim umræðum sem hér hafa orðið, af nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og umræðum hér í dag að það er ekki sátt um málið. Á því eru miklir vankantar, það þarf að vinna það betur og ég bið forseta að sjá til þess að þessir hluti geti gengið vel fyrir sig þannig að við náum sátt um málið.