144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga um að gera hlé á 2. umr. og að hv. atvinnuveganefnd taki málið aftur til skoðunar og taki tillit til umsagna hv. umhverfis- og samgöngunefndar en það var hluti af þeirri umræðu þegar málið var lagt fram í byrjun að málinu yrði vísað til umsagna þeirrar nefndar. Hún er algerlega hunsuð í því nefndaráliti meiri hlutans sem hér liggur fyrir þannig að það er alveg ljóst að þingið er ekki tilbúið í 2. umr. á þessu máli. Áttum okkur á því að við erum enn stödd í febrúarmánuði og það er ekki eins og það liggi mikið á þó að menn vilji klára þetta mál fyrir vorið. Að sjálfsögðu er það eðlileg krafa að við gerum hlé á 2. umr., hv. atvinnuveganefnd taki málið aftur til sín og svo getum við haldið umræðunni áfram þegar búið verður að fara yfir til að mynda umsagnir hv. umhverfis- og samgöngunefndar og búið að bregðast við gríðarlega mikilvægum gagnrýnispunktum sem hér hafa verið settir fram um aðkomu almennings, (Forseti hringir.) aðkomu Alþingis, skipulagsvald sveitarfélaga og umhverfisáhrifin. Fyrr er þetta mál ekki tilbúið til að vera afgreitt frá þinginu.