144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, það er höfuðsynd að láta þetta argaþras þvælast fyrir því að umræður geti hafist um ísaldarurriðann sem síðar er á dagskrá fundarins. En af því að forseti hefur ekki brugðist við tilmælum þingmanna beini ég orðum mínum til hv. framsögumanns málsins, Þorsteins Sæmundssonar.

Það er komið fram að þingnefnd undir forustu þingmanns Framsóknarflokksins, Höskuldar Þórs Þórhallssonar, hafði ekki tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að áður en málið var afgreitt út úr nefndinni og sömuleiðis kom fram í þingræðu að nefndur þingmaður Framsóknarflokksins sem er formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuldur Þór Þórhallsson, sá sem af hálfu þingflokks Framsóknarflokksins hefur verið falið að fara fyrir flokknum í þinglegri meðferð á þeim málum sem snerta umhverfið, telur nauðsynlegar tvær veigamiklar breytingar á málinu. (Forseti hringir.) Þegar þetta hefur orðið við 2. umr. málsins á framsögumaðurinn að taka frumkvæði í því að biðja um hlé á umræðunni og fara betur yfir málið áður en þeir flokksbræður takast frekar á í salnum um sjónarmið sín.