144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Atvinnuveganefnd fjallaði ítarlega um þetta mál. Ég held að það séu bókaðir 18 fundir í nefndinni um það, við tókum það til umfjöllunar strax fyrir jól og tókum aukafundi í jólafríi til að fjalla sérstaklega um það. Við höfum lagt á okkur mikla vinnu. Við fórum alveg sérstaklega í heimsókn til Landsnets og fengum þar kynningar. Við höfum ítrekað fengið aðila á fund nefndarinnar, við höfum leitt saman ólík sjónarmið á fundum nefndarinnar þar sem við höfum fengið andstæða póla til að ræða við okkur og niðurstaðan er sú að eftir þessa miklu og vönduðu umfjöllun í hv. atvinnuveganefnd varð bara mjög víðtæk sátt í nefndinni um afgreiðslu málsins. Allir fulltrúar voru fylgjandi því nema fulltrúi Vinstri grænna sem reyndar vildi ekki vera með á nefndaráliti þegar við afgreiddum það út. Hún vildi aðeins taka málið upp í þingflokknum áður en það yrði afgreitt út.

Í hv. umhverfisnefnd hefur verið fjallað um málið á tveimur fundum, (KaJúl: Nei.) (Gripið fram í.) var mér sagt í dag, bókað, kannski hefur það verið leiðrétt, kannski eru þeir fleiri, en það er alveg ljóst (Forseti hringir.) að það var ekki gert af neinu viti fyrr en núna í janúar og við getum bara ekki að því gert þó að nefndin hafi ekki unnið málið frekar en raun ber vitni. Um það var nokkuð víðtæk samstaða í atvinnuveganefnd og ég sé enga ástæðu til að sú umræða sem hér er í gangi geti ekki haldið áfram það sem eftir lifir kvölds og lengur ef þurfa þykir.