144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að heyra að hv. þm. Guðbjartur Hannesson er bjartsýnn, eins og hans er reyndar von og vísa. Ef vilji er til þess af hálfu meiri hlutans tel ég að sjálfsögðu að minni hlutinn eigi að setjast við borðið með meiri hlutanum. Þar er ég ekki að tala um minni hlutann því að við erum með þingmenn úr meiri hlutanum í umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að affarasælast væri að gert yrði hlé á 2. umr. og málinu vísað aftur til hv. atvinnuveganefndar til að ljúka umfjöllun um það og svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið. Hv. þingmaður nefnir hér til að mynda að Alþingi fái kerfisáætlun til þinglegrar meðferðar, að einhvern veginn þurfi að koma umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum að. Það kallar á það að fólk nálgist þessi mál með heildstæða hugsun að vopni. Við höfum því miður séð það, eins og til dæmis í umfjöllun Alþingis um rammaáætlun, að skorta virðist á skilning á þeirri heildstæðu hugsun. Menn halda að hægt sé að fjalla um nýtingu í einni nefnd og verndun í annarri og átta sig ekki á að hugmyndafræði rammaáætlunar gengur einmitt út á að þetta verði ekki sundur slitið, að við erum að raða saman valkostum til að geta borið þá saman.

Ég kalla því eftir því að menn nútímavæðist. Hér hefur verið rætt um það að nefndarálitið hefði að sumu leyti allt eins getað verið frá árinu 1975. Hv. þingmenn þurfa greinilega að fara fram í tímann. En hvað varðar sveitarfélögin og skipulagsvald þeirra, því að nú er það svo að sjálfstæði sveitarfélaga er mjög ríkt, bæði í stjórnarskrá og lögum, spyr ég: Telur hv. þingmaður að einhverjar leiðir séu til sátta í þeim efnum og hvaða leiðir nákvæmlega sér hann fyrir sér í því?