144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið sem við erum að fjalla um og innleiða í íslensk lög, eins og ég kom að í ræðu minni, átti að vera til að einfalda og auka skilvirkni, til að skýra ferla, til að reyna að tryggja að ákveðnir hlutir yrðu gerðir til að leiða málið áfram. Ég tel ekkert athugavert við það. Varðandi kerfisáætlun, sem á að vera til tíu ára og þriggja ára, tel ég ekki að hún þurfi að fara í umhverfismat nema ef Orkustofnun á ein að vera lokaaðili í umsögn og skila henni án þess að aðrir aðilar komi að, þá er annað útilokað en að hún fari í umhverfismat. En ef hún fer til Alþingis og fjallað er um hana þar finnst mér að það eigi að vera eins og með samgönguáætlun. Við tökum ekki hverja einustu framkvæmd í samgönguáætlun og setjum hana í umhverfismat en við þurfum að tryggja að sú umfjöllun komi til áður en farið er út í framkvæmdir, líkt og verið hefur.

Ég hef tilhneigingu til að reyna að leita. Við þurfum rafmagn og við þurfum að koma því um allt land. Við þurfum að geta dreift því og við þurfum að tryggja öryggi. Við sjáum það meðal annars í kjördæmi okkar hv. þingmanns, eins og á Vestfjörðum þar sem vantar mjög mikið upp á rafmagnsöryggi. Við vitum að við þurfum að bæta allar línur og við þurfum að finna lausnir sem miða að því að tryggja að þangað sé hægt að fara með fyrirtæki sem þurfa orku o.s.frv. En það þýðir ekki að við eigum að henda öllu út hvað varðar umhverfissjónarmið, bara til að reyna að ná því markmiði. Við þurfum að leiða saman þessa tvo þætti, nýtingu og umhverfismál.

Það er rétt sem kemur fram og kemur líka fram í frumvarpinu að vegna þess að málið er sett í þennan farveg er ekkert fjallað um umhverfismál. Það er auðvitað einn veikleikinn og er grundvöllurinn fyrir því að það skapast ósátt um frumvarpið, eða einn af þáttunum, þeir eru miklu fleiri. Það er lýðræðið, aðkoma Alþingis, hvernig farið er með sveitarfélögin og fleira.