144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú hefur þessi umræða staðið hér í dag og er búin að vera mjög góð. Við höfum farið ítarlega yfir málin. Síðan ákveður hv. formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, að koma hingað með einhvern slíkan skæting sem ég hef aldrei orðið vitni að áður. Hann heldur því fram að umsögn umhverfis- og samgöngunefndar hafi verið eitthvert fúsk, hún hafi verið illa unnin af nefndinni, nefndin hafi bara haldið tvo fundi, sem er ekki rétt, og ekki unnið sín mál vel. Hvers konar eiginlega talsmáti er þetta til samþingmanna sinna?

Umhverfis- og samgöngunefnd vann þetta mál eins vel og hún gat, fór vandlega yfir það, hafði fyrir því að skrifa nefndarálit sem óskað var eftir af atvinnuveganefnd og senda atvinnuveganefnd það. Og þetta eru kveðjurnar sem nefndin fær. Er þetta það sem þetta þing ætlar núna að láta viðgangast? (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.) Þetta er algjört hneyksli. (Forseti hringir.) Svona koma menn ekki fram hver við annan í þessum sal.