144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að forseti verði að átta sig á því að staða málsins er með þeim hætti að það stendur enginn með því. Hér hefur hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson staðið sig ágætlega í því að taka þátt í umræðunni. Að öðru leyti ber allt að sama brunni, allar umsagnir um málið sem hafa verið hér til umfjöllunar, umsagnir lykilaðila í málinu, umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ítrekað hefur verið talað um að málið sé vanbúið. Málið kemst ekki lengra í 2. umr. Henni verður ekki lokið og málið verður að komast aftur til nefndarinnar. Það er ekki tilbúið og var ekki einu sinni tilbúið til að hefja 2. umr. Þannig er staða málsins. Við getum alveg haldið áfram með einhverjar ræður en málið var ekki tilbúið fyrir 2. umr. Hv. atvinnuveganefnd kláraði ekki umfjöllun málsins, (Forseti hringir.) sem var fyrir það fyrsta vanbúið, en nefndin lauk ekki umfjöllun sinni með þeim hætti að boðlegt sé fyrir Alþingi.