144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta var stórathyglisvert innlegg frá varaformanni þingflokks Framsóknarflokksins þar sem hann taldi upp þátttöku stjórnarliða í umræðunni og gleymdi hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar. Var ræða hans bara ómerk, fór hún ekki fram hér í dag? Er starfandi formaður þingflokks framsóknarmanna að afneita flokksfélaga sínum, Höskuldi Þórhallssyni? Telst hann ekki með stjórnarliðinu, meiri hluta? Ég hélt að hv. þingmaður væri á leiðinni upp í ræðustólinn til að taka upp hanskann fyrir hv. þm. Höskuld Þórhallsson og umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur sætt ómaklegum árásum frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem, eins og hér kom fram, virðist halda að þegar leitað er álits frá fagnefnd, frá annarri nefnd sem ber ábyrgð á máli, sé það til að endurtaka allt ferlið, kalla alla sömu gesti fyrir í staðinn fyrir að horfa til þeirra þátta sem faglega heyra undir viðkomandi nefnd.

Gagnrýni hv. þm. Jóns Gunnarssonar á umhverfis- og samgöngunefnd eru sannarlega steinar úr glerhúsi því að það er einmitt meiri hluti atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) sem fær hér falleinkunn fyrir vinnubrögð, ekki öfugt.