144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður ræddi í ræðu sinni reglugerðarfarganið, þar sem er vísað til reglugerðar án þess kannski að fyrirmælin séu mjög skýr um það sem vísað er þangað. Mig langar að heyra betur álit hv. þingmanns á því, vegna þess að við höfum sameiginlega tekið þátt í störfum hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Þar höfum við glímt við sama vandamál þar sem menn leysa gjarnan málin þannig að þeim er vísað til reglugerðar án þess að mjög skýr fyrirmæli liggi fyrir um hvað eigi að leggja til grundvallar, sem í raunveruleikanum stangast á við allar leiðbeiningar um það hvernig lagasetning og reglugerðarsetning eigi að vera.

Mig langar að fara aðeins betur í athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er mjög athyglisvert í þeirri umsögn að í inngangi frumvarpsins fagna menn því að sambandið hafi fengið að koma að vinnunni og lýsa þeim markmiðum sem sett eru með þessum lögum, sem eru auðvitað að reyna að hafa skýrar hvernig ákvarðanir eru teknar, gera kerfisáætlanir, vinna fram í tímann og flýta afgreiðslu o.s.frv. En á sama tíma óskar sambandið eftir nánari skýringum. Ég les orðrétt upp úr athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„… að í skýringum með frumvarpinu yrði skýrt nánar, helst með raunhæfum dæmum, hvaða vandamál það væru sem ætlunin væri að leysa með því inngripi í skipulagsvaldið sem lagt er til í 9. gr. c. “

Af einhverjum ástæðum var ekki orðið við þessari ósk sambandsins. Það vekur furðu að þetta kemur heldur ekki fram í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, raunar ekkert í athugasemdunum almennt. Hvers vegna er þetta ekki skýrt ef það á að réttlæta að skipulagsvaldi sé ýtt til hliðar til að koma deilum áfram, án þess að báðir aðilar séu (Forseti hringir.) sérstaklega við borðið?