144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir þetta. Eins og ég sagði áðan finnst mér það hljóta að vera eitthvað sem við verðum að velta fyrir okkur og forseti þarf kannski að beita sér gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað það snertir. Þegar verið er að færa mikinn hluta frumvarpa til ráðherra í formi reglugerðarheimildar er aðkoma þingmanna auðvitað orðin mjög takmörkuð, nema ef reglugerðin er lögð fram samhliða. Það er tækifæri til að hafa áhrif á hvernig hún lítur út. Sambandið bendir réttilega á að fá dæmi eru um hvaða ágreiningsefni það eru sem gætu komið upp sem réttlæta þá málsmeðferð sem hér er verið að leggja til. Þeir leggja líka til lausnir sem manni finnst að sjálfsögðu vont að ekki sé tekið tillit til. Það er ekki alltaf sem maður sér í umsögnum sem hingað berast beinlínis lagt til hvernig hægt sé að leysa mál án þess að farið sé inn í það á þann hátt að ekki sé við unað.

Mér finnst mjög mikilvægt þegar kemur að reglugerðarsetningu að það sé ekki gert á þann hátt sem hér á að gera, stór hluti málsins, allt of viðamikill. Ábyrgðin er færð frá þingmönnum, sem við höfum alla vega lýst yfir að við viljum hafa, yfir til ráðherra sem fá að ráðskast með þetta.