144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið.

Nei, ég ætla bara að byrja þar sem hv. þingmaður endaði, ég kannast ekki við að neinn asi þurfi að vera á þessu máli og það er alveg rétt að það er svolítið sérstakt frá hvaða flokkum þessi miðstýring er sem hér er verið að reyna að beita en samt í þágu einkafyrirtækis, við skulum ekki gleyma því. Það er kannski það sem ágætlega er tekið fram í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar, sem fylgir áliti hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur í minnihlutaáliti atvinnuveganefndar, þar sem talað er um meðal annars að ekki sé gert ráð fyrir málsmeðferð sem hægt sé að leita sátta ef ágreiningur er og að ekki sé um jafn fortakslausa skyldu að ræða fyrir sveitarfélög að samræma skipulagsáætlanir sínar samgönguáætlun, sem þó er samþykkt sem ályktun Alþingis, eins og hér kemur fram. Sú forsenda þurfi ekki að taka tillit til neins hjá sveitarfélögum, hvorki hvernig byggðin þróast né hvernig það kemur fram í aðalskipulagi þeirra eða neitt slíkt, þá er ekki tekið tillit til þess.

Ég tel að ástæða sé til að vara við því sem þar er sagt og bent á. Auðvitað hefur maður áhyggjur, þó að ég telji ekki ástæðu til að málið komi fyrir fjárlaganefnd, en ég hef þá trú að fyrir rest náist einhver ásættanleg niðurstaða í þetta mál. Ég trúi ekki að málið verði keyrt hér í gegn með ofbeldi og ég trúi því þá að ráðherrann kippi í taumana og dragi málið til baka ef ekki fer betur en svo að ekki virðist vera neinn vilji til breytinga.