144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki þóttu mér þetta nú fullnægjandi svör hvað varðar það hvernig við umgöngumst þingsköpin. Það kallar kannski á umræðu um hvernig við umgöngumst þingsköpin sem ég leit svo á að við ættum að virða. Ég hef raunar ítrekað gert athugasemd við það í vetur þegar þau hafa ekki verið virt eins og hvað varðar nefndarvísanir og annað, þannig að mér finnst þetta kalla á nýja umræðu um það.

En mig langar að spyrja virðulegan forseta hvort ekki sé rétt að virðulegur forseti taki tillit til þeirrar málsmeðferðar sem ég lagði til fyrr í kvöld um að gert yrði hlé á umræðunni og málinu vísað á nýjan leik til hv. atvinnuveganefndar í ljósi þess að atvinnuveganefnd tók ekki tillit til umbeðinnar umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar eins og henni er þó skylt að gera samkvæmt þeim sömu þingsköpum. Meiri hluti atvinnuveganefndar átti að birta álit umhverfis- og samgöngunefndar með nefndaráliti sínu en það var ekki gert. Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að málið sé með öllu vanreifað af hálfu meiri hlutans í atvinnuveganefnd og því finnst mér það eðlileg og sanngjörn krafa að biðja um að nefndin ljúki umfjöllun um málið áður en 2. umr. verður fram haldið. Ég vil inna hæstv. forseta eftir afstöðu til þessarar beiðni.