144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína að hæstv. forseti telji það vera í lagi, telji málið ekki vanbúið og telji ástæðu til að hunsa 4. mgr. 24. gr. þingskapa. Þar segir að prenta skuli umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti um þingmálið. Það liggur fyrir að það gerði meiri hluti atvinnuveganefndar ekki.

Mér finnst það mjög sérstakt ef fara á eftir sumum þingskapalögum og öðrum ekki. Þegar það liggur algerlega ljóst fyrir að þetta var ekki gert, þá skil ég ekki hvernig forseti getur fallist á að hægt sé að klára efnislega umræðu. Þegar fyrir liggur að atvinnuveganefnd tók þetta álit, sem hún þó óskaði eftir, ekki til efnislegrar umræðu. Hvernig getur forseti fallist á að málið sé ekki vanbúið til umfjöllunar? Mér er algerlega óskiljanlegt að hann geti sæst á það.