144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt, ef ég má orða það svo, að það hefur fyrr súrnað smjör á Hólum. Það hefur sjálfsagt áður gerst að menn hafa ekki strangt til tekið haldið sig við þau ákvæði þingskapanna að vitna ekki beint í það sem aðrir segja á nefndafundum eða annars staðar. Eftir stendur að þetta var ekki gott, sem hv. þm. Jón Gunnarsson gerði, vegna þess að ég lagði í það þann skilning að hann væri að tala niður til hv. þingmanns, að þetta væri í óvirðingarskyni gert. Það gerir málið verra.

Ég held að það sé óumflýjanlegt að við ræðum þessi samskipti þingnefndanna í forsætisnefnd. Þetta er greinilega ekki í lagi. Eftir ræðu hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar hér í dag, formanns umhverfis- og samgöngunefndar, varð það endanlega ljóst að þessi samskipti þingnefndanna voru ekki í lagi og það hallar á atvinnuveganefnd, eða meiri hluta hennar, í þeim efnum.

Það hefur því verið sanngjörn krafa og vel undirbyggð að 2. umr. sé frestað og málið fari aftur til nefndar. (Forseti hringir.) Það er besti kosturinn fyrir alla aðila, þetta er lagt til af velvilja í þágu málsins.