144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur ef einhverjir vilja halda því fram að ég hafi verið að tala niður til hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hér áðan. Ég var fyrst og fremst að leggja áherslu á það í hversu mikilli sátt þetta mál var afgreitt úr atvinnuveganefnd, í hversu víðtækri pólitískri sátt. Enginn þingmaður gerði athugasemd við málið og ég var að vitna til þess.

Ég biðst velvirðingar á því, virðulegi forseti, að hafa vitnað beint til viðbragða þingmannsins þegar ég spurði hvort hún yrði með okkur hinum á málinu, ég vitnaði til svars hennar. Engar athugasemdir voru gerðar við það að við værum að afgreiða málið. Engar athugasemdar voru gerðar við nefndarálit meiri hlutans sem þá lá fyrir.

Það er alveg rétt að umsögn umhverfis- og samgöngunefndar barst okkur mjög seint. Nefndin hafði haft málið til umfjöllunar frá því um miðjan nóvember. Ég tel að geti nefnd ekki lokið störfum á þeim tíma sem hún hafði til umráða í þessu máli (Forseti hringir.) hafi tæplega verið vandað til verka. Það er það sem ég var að gagnrýna hér áðan. Mér finnst það vera mjög dapurt (Forseti hringir.) ef slíkur tími dugar ekki nefnd til að skila áliti til annarrar nefndar. Við getum ekki látið það tefja okkur í atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) þó að aðrir hafi ekki tíma til að sinna (Forseti hringir.) þeim málum sem berast á þeirra borð betur en raun ber vitni.