144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að taka þátt í þessari umræðu þegar hér snýst allt um það að snúa út úr orðum manns. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Helga Hjörvar að fulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi Bjartrar framtíðar voru ekki á fundinum. Fulltrúi Samfylkingarinnar var veikur heima, hv. þm. Kristján Möller, og var með okkur í síma og hann er á nefndarálitinu eins og fram kemur. (Gripið fram í: Með fyrirvara.) Fulltrúi Bjartrar framtíðar var fjarverandi. Ég náði ekki sambandi við hana til að vita hvort hún vildi vera með okkur í síma til að afgreiða málið. Hún var einnig lasin en hún er ekki með sérstakt nefndarálit í þessu máli. Andstaða hennar við afgreiðslu málsins hafði ekki komið fram á nefndarfundum þannig að þetta er það sem ég kalla víðtækari pólitíska sátt en við náum um mörg önnur mál í nefndum þingsins þegar einn fulltrúi, þ.e. fulltrúi (Forseti hringir.) Vinstri grænna, er með sérnefndarálit og er ekki sammála niðurstöðu þessa víðtæka meiri hluta.