144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að auglýsa eftir samfélagslegri ábyrgð stærstu fjármálastofnana landsins. Í gær var tilkynnt að hagnaður Arion banka á síðasta ári hefði numið 28,7 milljörðum kr. sem er tvöfalt meira en árið á undan. Í gær var líka tilkynnt að hagnaður Íslandsbanka á síðasta ári hafi numið tæpum 23 milljörðum kr. sem er svipað og árið á undan. Þetta er glæsilegur árangur og full ástæða til að óska þessum stóru og mikilvægu fjármálastofnunum til hamingju með árangurinn. Arion banki greiddi um 8 milljarða kr. í arð til eigenda sinna í fyrra. Væntanlega verður arðgreiðslan mun hærri í ár, jafnvel helmingi meiri. Til hamingju, eigendur Arion banka, sem reyndar eru flestir andlitslausir.

Stóru bankarnir státa sig af samfélagslegum skyldum eða samfélagslegri ábyrgð. Hugtökin eru teygjanleg og það er jafnvel til staðar ákveðinn ómöguleiki þegar þau eru skilgreind. Það hefur því gjarnan verið til siðs að klára málið með því að veita nokkra styrki til góðra málefna. Það fer hins vegar minna fyrir ábyrgð bankanna gagnvart viðskiptavinum sínum, viðskiptavinum sem halda þessum stofnunum gangandi á einn eða annan hátt. Í nánast verðbólgulausu landi lætur Arion banki íbúðakaupendur borga allt að 8% ársvexti á óverðtryggðum lánum. Ársvextir af kreditkortalánum eru 12%. Ef maður ætlar að leggja pening inn á reikning hjá Arion banka býður bankinn upp á vexti frá 0,1% og upp í u.þ.b. 1%. Tölurnar frá Íslandsbanka eru ekki svo ólíkar.

Það er stundum talað um vaxtaokur. Það má nota það orð um viðskiptahætti bankanna. Á meðan stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins berjast við að bæta lífskjör almennings eru bankarnir alltaf með allt sitt á þurru. Hinn almenni borgari hefur ekkert val. Hann þarf að eiga viðskipti við stofnanir sem hafa aðeins eina hagsmuni að leiðarljósi, eigendanna. Hjá þeim er samfélagsleg ábyrgð bara klisja.