144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á því að íslensk stjórnvöld hafa ekki orðið við tilmælum Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum á þann hátt að nefndin telji það ásættanlegt og við sætum nú ákúrum fyrir. Við erum að vísu hætt að fá ákúrur fyrir að leyfa ekki einstökum trúarhópum að byggja sín bænahús þar sem úthlutað hefur verið lóð undir mosku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og hof ásatrúarmanna og hvað það nú er, en að því var fundið á umliðnum árum. En nú er það einkum tvennt sem nefndin gagnrýnir og átelur íslensk stjórnvöld fyrir seinagang í og það er að hafa annars vegar ekki leitt í lög fortakslaust bann við mismunun og hins vegar að hafa ekki tekið upp í hegningarlög ákvæði um að meta beri til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki brotum.

Ráðherra er sagður vera að undirbúa viðbrögð en nefndin hefur séð á þau spil og telur þau ekki fullnægjandi. Þetta er fremur dapurlegt og ég tel ástæðu til þess að Alþingi sé meðvitað um þessa stöðu, það er auðvitað ekki bara framkvæmdarvaldsins að sjá um að þetta sé í lagi. Evrópuráðið er framvörður mannréttindabaráttu og baráttu á því sviði í Evrópu, samanber mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstól Evrópu. Þess vegna er það dapurlegt fyrir okkar þjóðþing sem aðila að þeirri samkundu að þurfa að sitja uppi með ákúrur af þessu tagi, sumpart eingöngu vegna sleifarlags, trassagangs. Það er að sjálfsögðu ekki flókið mál að taka í lög fortakslaust bann við mismunun og það er heldur ekki flókið að taka inn í hegningarlög að líta beri til þess til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki brotum á viðkomandi lögum. Hér þurfum við Íslendingar að taka okkur tak.