144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það á að vera okkur verulegt áhyggjuefni að Ísland skuli ekki vera einn af helstu valkostunum þegar kemur að risafjárfestingu í alþjóðlegu gagnaveri. Það vekur auðvitað athygli í því sambandi að ekki skuli hafa verið svarað bréfum, að forustumenn skuli ekki hafa verið tilbúnir til þess að skýra jákvæða afstöðu landsins til slíkra fjárfestinga með afgerandi hætti en jafnvel þó að við látum það vera á það að vera okkur sérstakt áhyggjuefni þegar horft er til þess að þó að við njótum að ýmsu leyti forskots frá náttúrunnar hendi þegar kemur að náttúrulegri kælingu fyrir starfsemi eins og gagnaver, þegar kemur að grænum auðlindum sem eru eftirsóknarverð orka fyrir slík gagnaver, er það Danmörk sem hvorki býr að meiri náttúrulegri kælingu en við né hefur yfir að ráða grænum orkuauðlindum og býður heldur ekki upp á ívilnanir fyrir slíkar fjárfestingar verður engu að síður fyrir valinu. Önnur lönd og sunnar en við og fátækari að orkuauðlindum eru líka líklegri valkostir. Þess vegna blasir við að það eru pólitískar ákvarðanir sem við höfum tekið um staðsetningu landsins, smæð efnahagskerfis okkar, smæð gjaldmiðils okkar og stöðu okkar í heiminum sem eru hér áhrifavaldur. Það á að vera okkur verulegt viðvörunarmerki þegar í einum mánuði berast fréttir af því að (Forseti hringir.) alþjóðlegt fyrirtæki hér staðsett (Forseti hringir.) ákveði að fara úr landinu, (Forseti hringir.) fréttir birtast um að við séum ekki valkostur fyrir alþjóðlega fjárfestingu í tæknigeiranum og þegar (Forseti hringir.) fyrirtæki sem eru að ná á legg flytja úr landi til að fá fjármögnun og eðlilegt viðskiptaumhverfi.