144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Bara örstutt í upphafi um það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að það sé mikilvægt að við aukum á næstu árum orkuframleiðslu, framleiðslu sjálfbærrar grænnar orku, til að geta boðið fleiri gagnaver og fleiri fyrirtæki velkomin hingað til lands. Hv. þingmaður verður þá væntanlega bandamaður stjórnarliða í því þegar þar að kemur.

Það sem ég ætlaði að tala um er það sama og hv. þm. Karl Garðarsson kom inn á, hagnaður bankanna. Arion banki gerir ráð fyrir að skila 28,7 milljarða hagnaði og Íslandsbanki 23 milljarða hagnaði. Ég held að við séum öll orðin svolítið ónæm fyrir tölum, en við getum sett þessar tölur í samhengi. Það hefur verið umræða að undanförnu um að ljósleiðaravæða allt landið. Það væri hægt að ljósleiðaravæða allt landið tíu sinnum fyrir þá upphæð sem þessar tvær fjármálastofnanir, sem eru í eigu erlendra kröfuhafa, greiða sér nú í arð. Á sama tíma skila þessar fjármálastofnanir ekki stýrivaxtalækkun til almennings þegar stýrivextir eru lækkaðir hérna. Vaxtamunur Arion banka jókst um 0,2% um síðustu áramót og hjá Íslandsbanka um 0,15%. Arion hækkaði vexti á verðtryggðum lánum samhliða því.

Okkur tókst vissulega að endurreisa hérna bankakerfið, en við hljótum að spyrja okkur þegar við skoðum þetta: Tókst okkur að endurreisa bankakerfi sem tryggir hagsmuni almennings og eðlilega samkeppni? Dæmi hver fyrir sig af þessum tölum. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að það var full ástæða til að láta þrotabú föllnu bankanna, sem eiga í dag reiðufé upp á 1.400 milljarða og eignir upp á 2.500 milljarða, greiða eðlilega skatta til samfélagsins eins og þessi ríkisstjórn ákvað að gera í síðustu fjárlögum vegna þess að nú fá þessi þrotabú þessar arðgreiðslur greiddar. Það er full ástæða til að ganga lengra hvað þetta snertir og að þrotabúin greiði hér hærri skatta, bæði í formi þeirrar skattheimtu (Forseti hringir.) sem verið hefur til umræðu, útgönguskatta hugsanlega eða bara hærri skatta almennt vegna þess að þrotabúin, í gegnum þau dótturfyrirtæki sem þau eiga, (Forseti hringir.) eru ekki að skila þessu til almennings í gegnum (Forseti hringir.) Arion banka og Íslandsbanka.