144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að gera að umræðuefni störf þingsins vegna þess að ég er enn mjög hugsi eftir uppákomu sem varð hér í gær þegar við ræddum um kerfisáætlun í raforkulögum. Það kom mjög hörð gagnrýni til atvinnuveganefndar frá umhverfis- og samgöngunefnd sem var umsagnaraðili í málinu og atvinnuveganefnd ákvað að hunsa algjörlega það álit og ekki einu sinni birta það með sínu né heldur virða það til svars sem þar kom fram. Þetta var gagnrýnt hér í gær og óskað eftir því að menn gæfu einhver efnisleg svör við þeirri gagnrýni sem meiri hluti og minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar höfðu við málið. Því var svarað með miklum skætingi af hálfu formanns atvinnuveganefndar þannig að umhverfis- og samgöngunefnd hefði hreinlega unnið málið illa.

Ég er þeirrar skoðunar að svona eigum við ekki að tala hvert til annars, heldur eigum við að taka efnislega til athugunar þær athugasemdir sem félagar okkar í öðrum nefndum gera við þau mál sem verið er að vinna. Við ættum að láta þetta mál kenna okkur ýmislegt, í fyrsta lagi það að við þurfum að setja okkur einhverja umgjörð um það með hvaða hætti samskipti nefnda í þinginu eigi að vera þannig að umsagnarnefndir viti stöðu sína gagnvart nefndinni sem vinnur síðan með málið og hvað nefndinni er nákvæmlega falið að gera.

Ég tel líka að af hinu snautlega nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar gagnvart þessu máli megi læra að setja eigi einhvers konar leiðbeiningar fyrir nefndirnar um það með hvaða hætti þær eigi að ljúka málum. Í þessu nefndaráliti er í engu reynt að svara þeirri hörðu gagnrýni sem fram kemur á málið, m.a. um óskýrleika og kæruleiðir. Það þýðir að málið fer vanreifað af stað, illa undirbúið og við hendum því út í stjórnsýsluna til að vinna með það án þess að hún hafi fengið svör við þeirri gagnrýni (Forseti hringir.) sem hún hefur lagt fram. Ég tel að þetta tvennt þurfi að leiða af þessu máli. Svo sé ég að það er ekki á dagskrá hér og ég ber þá þær væntingar til þess að (Forseti hringir.) það sé vegna þess að menn séu að skoða óskir okkar um að það verði tekið aftur inn áður en 2. umr. er lokið.