144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar horft er til þeirrar hræðilegu reynslu sem fólk og fyrirtæki á Íslandi hafa af erlendum lánum og gengistryggðum lánum þá hlýtur maður að spyrja ráðherrann hvers vegna Alþingi ætti að samþykkja jafn rúmar lagaheimildir til slíkra lánveitinga á ný og hér er lagt til. Þegar vísað er til sjónarmiða ESA þá hlýt ég að spyrja: Nú uppfyllum við ekki það grundvallaratriði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem er frjáls fjármagnsflutningur, af hverju eigum við þá að taka þennan þátt, gengistryggð íslensk lán, og heimila hann sérstaklega áður en við uppfyllum haftalaust fjármagnsflæði?

Fyrst ég hef tækifæri til þess að beina spurningum til hæstv. fjármálaráðherra um lög um vexti og verðtryggingu hlýt ég líka að spyrja, nú þegar gengistryggð lán virðast vera í forgangi hjá ríkisstjórninni og úr því ráðherrann er að opna hér lög um vexti og verðtryggingu: Hvers vegna eru ekki um leið kynnt ákvæði um bann við verðtryggðum lánum af ákveðnum gerðum sem forsætisráðherra hefur lagt mikla áherslu á og heitið hefur verið að komi fram á vorþinginu? Er ekki eðlilegt að opna í einu og sama frumvarpinu lögin um vexti og verðtryggingu bæði með breytingum á þeim þáttum sem lúta að gengistryggðum lánum og eins hvað varðar verðtryggðu lánin? Eða er ekki ætlunin af hálfu ríkisstjórnarinnar að uppfylla fyrirheit hæstv. forsætisráðherra um verðtryggðu lánin?