144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[15:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Meginástæðan fyrir því að málið er komið fram á þessum tímapunkti liggur í því sem fram kom í máli mínu að álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, er að bann í íslenskum lögum við gengistryggingu standist ekki. Í næsta mánuði væri að vænta stefnu fyrir EFTA-dómstólnum og það er mat sérfræðinga okkar að varnir Íslands í slíkum málarekstri væru tiltölulega haldlitlar miðað við Evrópuréttinn eins og hann blasir við okkur.

Mér fannst hins vegar óljóst í máli hv. þingmanns hvort hann var í raun og veru að spyrja mig að því hvers vegna við bönnuðum ekki fólki almennt að taka erlend lán, en í lögum er í dag ekkert bann lagt við því að taka erlent lán, við erum eingöngu með bann við gengistryggingu. Eins og ég rakti í löngu máli þá er í sjálfu sér ekki stórkostlegur munur á þessu tvennu.

Hér er leitast við að breyta löggjöfinni þannig að hún samrýmist betur þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir með EES-samningnum, en á sama tíma að bregðast við þeim vanda vegna erlendra lána sem og gengistryggðra lána með því að tryggja betur en gilt hefur fram til þessa, m.a. með opinberum afskiptum, að slík lán séu ekki veitt nema til þeirra sem eru líklegir til að geta staðið við þau. Það þýðir með öðrum orðum að þeir sem eingöngu hafa tekjur í íslenskum krónum, eins og langflestir þeirra sem tóku slík lán á sínum tíma höfðu, mundu almennt ekki standast það greiðslumat sem þarf að fara fram fyrir veitingu slíks láns. Þeir mundu þurfa að sýna fram á annaðhvort verulega mikla eignastöðu sem þeir gætu breytt yfir í gjaldmiðil eða að einhverju leyti tekjustreymi í erlendum gjaldmiðlum svo að þeir stæðust matið. (Forseti hringir.)

Í eðli sínu er með þessum breytingum (Forseti hringir.) verið að draga stórlega úr notkun bæði erlendra lána (Forseti hringir.) og gengistryggðra lána til almennra neytenda.