144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var alveg ótrúleg ræða, í raun og veru samhengislaus vaðall sem skautaði fram hjá öllum aðalatriðum þessa máls. Alveg með ólíkindum að hlusta á þessa framsögu.

Í fyrsta lagi. Hvernig væri að taka eftir því í frumvarpinu að settar eru verulegar skorður við erlendri lántöku? Mætti ég vekja athygli þingmannsins á því að það er eitt helsta og aðalatriði þessa máls að fram til dagsins í dag hafa menn óhindrað getað tekið erlend lán en eftir að þessi lög taka gildi geta menn það ekki lengur. Það er eitt meginatriði málsins. Samt kemur hv. þingmaður hingað upp, veður út og suður samhengislaust og býsnast yfir því að þessar lántökur hafi tíðkast í allt of miklum mæli og hér sé verið að greiða fyrir því til framtíðar. Algert rugl.

Í öðru lagi varðandi gengistryggðu lánin þá standa menn frammi fyrir tveimur valkostum. Annar er sá að leggjast í dómsmál gegn Eftirlitsstofnun EFTA og reyna að verja þá stöðu að gengistryggð lán séu alfarið bönnuð eða að horfa til þess sem stofnunin segir og hún er bara að segja þetta: Fortakslaust bann við gengistryggingu gengur ekki. Hún er ekki að segja að hvers konar bann gangi ekki upp, heldur fortakslaust bann. Þar með er ekki búið að lýsa því yfir þannig að útkljáð sé að þeir dómar sem hér hafa gengið hafi byggst á ólögum. Það er verið að segja: Fortakslaust bann gengur ekki.

Í frumvarpinu er brugðist við því áliti og í stað þess að reyna að verja hið fortakslausa bann er verið að sníða löggjöfina að því að gengistryggð lán geti í afar takmörkuðum mæli og undir ströngum skilyrðum gengið upp og þá eingöngu ef menn standast greiðslumat eða sérstakar ástæður réttlæta það. Þetta er aðalatriði málsins (Forseti hringir.) og hefði farið betur á því að hv. þingmaður hefði fjallað um það.