144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þetta var nokkuð skrýtin ræða hjá hv. þingmanni en andsvörin þó málefnalegri og betri. Manni finnst þetta sérkennilegt þegar maður hlustar á ræðu hv. þingmanns, sérstaklega í ljósi þess að á síðasta kjörtímabili, ég man það ekki nákvæmlega en hv. þingmaður man það örugglega betur en ég hvort hann sem hæstv. ráðherra flutti frumvarpið, en í það minnsta var samþykkt frumvarp sem sneri að neytendalánum. Það eru ýmsir sem telja að við höfum kannski gengið of langt þar í því að binda fólk þegar kom að lánum og það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að fólk velur mikið 40 ára lánin. Kannski var greiðslumatið of strangt, niðurstaðan varðandi neytendalánin. Það er ekki til umræðu hér en mér finnst skipta máli þegar formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins talar um þessi mál, að því gefnu að hann sé sammála því, að hann tali skýrt í þá veru að það er afskaplega óskynsamlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að fólk taki lán í öðrum gjaldmiðli en það hefur tekjur í og þá skiptir engu máli um hvaða gjaldmiðil er að ræða.

Gott dæmi er auðvitað það sem gerðist þegar bankahrunið varð á Íslandi. Ef þetta hefði ekki verið dæmt ólögmætt þá hefðu allir þeir sem tóku lánin erlendu lánin verið í svakalega slæmum málum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Í frumvarpinu eru sett skilyrði og ég vil bara spyrja hvort hv. þingmaður sé á móti því efnislega. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur að fenginni umsögn Seðlabankans bundið greiðslumat vegna erlendra lána sérstökum skilyrðum …“

Hér er í það minnsta ekki gengið lengra en í frumvarpinu um neytendalánin þegar er hugað er að því sem er oft kallað neytendaréttur. Hugsunin er einhvern veginn sú að fjármálafyrirtækin eigi að vita mun meira um þessi mál en lántakendur, í þessu tilfelli almenningur. Ég vil spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er hann fylgjandi því, finnst honum eðlilegt að fólk taki lán í öðrum gjaldmiðli en það hefur tekjur í?