144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að stærsta röksemdin gegn 40 ára verðtryggðum lánum felist í raun í þeim efnahagslegu rökum að þegar stærsti hluti fólks er með þannig lán sé erfitt að beita stýrivaxtatæki Seðlabankans, en við erum svo sem ekki að ræða það hér.

Mér finnst áhugavert að heyra þetta. Hv. þingmaður segir að hann ráðleggi engum að gera þetta, hann mundi ekki gera það sjálfur en vill ekki banna það. Það er áhugavert, það getur verið skynsamlegt að við nálgumst hlutina með þeim hætti. Auðvitað á fólk að bera ábyrgð á sjálfu sér, við getum ekki tekið það frá því, en við höfum og m.a. undir forustu síðustu ríkisstjórnar gengið mjög langt í því. Menn geta kallað það neytendarétt, menn geta kallað það forsjárhyggju, en menn hafa gengið mjög langt í því að búa til regluumhverfi þannig að fólk geti ekki gert eitthvað sem stjórnvöld telja óskynsamlegt. Greiðslumatið í síðustu lögum er náttúrlega gott dæmi um það. Kannski má segja að við séum að ganga allt of langt og við eigum bara að reyna að útskýra fyrir fólki að þegar illa fer sé það á þeirra (Forseti hringir.) eigin ábyrgð, en þannig hefur umræðan ekki verið (Forseti hringir.) og svo sannarlega ekki hjá þeim hv. þingmanni sem ég er í andsvari við eða flokksmönnum hans,