144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst bara gaman að heyra hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson voga sér í ræðustól nokkrum mánuðum eftir að hann er búinn að samþykkja leiðréttingu upp á 80 milljarða til fólks vegna hækkunar á verðtryggðum lánum þess umfram væntingar og segja að það þurfi bara að útskýra fyrir fólki hvað geti gerst og fólk eigi bara að lifa með afleiðingarnar af gerðum sínum. (GÞÞ: Hlustaðir þú ekki á …?) Það hefði verið umhugsunarefni fyrir hv. þingmann ef hann hefði kannski komist að þeirri niðurstöðu fyrr og hefði verið gaman fyrir okkur öll og við hefðum getað fengið að sjá annars konar niðurstöðu í atkvæðagreiðslu í þinginu um leiðréttinguna miklu.

Grundvallarhugmyndirnar í þessu máli hljóta auðvitað alltaf að felast í því að það er kross á milli neytendaverndar annars vegar og hins frjálsa vals hins vegar og menn þurfa að rökstyðja það mjög vel ef þeir ætla að banna ákveðna þætti. Hér er verið með lögum að leyfa eitthvað sem nú er bannað í tilviki gengistryggðra lána. Fyrir því hafa að mínu viti verið færð götótt rök og það stenst alls ekki (Forseti hringir.) þegar horft er til yfirlýstrar stefnu ríkisstjórnarinnar um að banna 40 ára verðtryggð lán.