144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit nú ekki hversu mikið ég get stutt hv. þingmann gegn ríkisstjórninni, ég er stuðningsmaður hennar. Hv. þingmaður féll í þá gryfju að tala um lágtekjufólk, ég reyni að gera það aldrei. Fólk er ekki fætt lágtekjufólk. Það er staða sem hægt er að breyta og mér finnst það eiginlega vera markmið allra stjórnmálamanna að breyta því þannig að fólk með lágar tekjur sé ekki lengur með lágar tekjur, annaðhvort á grundvelli meiri menntunar, betri starfa eða með einhverju slíku. Það er nefnilega ekki persónueinkenni, maður getur ekki sagt: Hann er bláeygur og lágtekjumaður. Þetta er einkenni sem hægt er að breyta og mér finnst að menn eigi að stefna að því að sem fæstir séu með lágar tekjur, alla vega til lengri tíma.

En það er rétt að Íslandslánið hefur reynst vera þessum hópi hentugt form til að komast yfir eignir, geta keypt sér íbúðir yfirleitt. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða í hv. nefnd þegar þetta og fleiri mál koma þangað.